144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:58]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég fór fyrst og fremst yfir í ræðu minni og andsvörum er að fyrir liggur mat sérfræðinga um að virkjanir munu hafa áhrif á laxagengd nema ráðist verði í mótvægisaðgerðir. Við höfum ekki vissu um það hvernig þær munu nákvæmlega virka né heldur hvaða áhrif þær munu hafa á arðsemi virkjunarinnar. Stóra atriðið er að mínu viti ekki endilega að það geti ekki farið saman að virkja og hafa laxagengd, heldur tel ég að við þurfum að hafa sæmilega vissu um áhrif mótvægisaðgerðanna til að geta tekið upplýsta ákvörðun. Þess vegna spurði ég áðan hversu mikil óvissa væri ásættanleg.

Það kemur klárlega fram í greinargerðinni að í raun er bara búið að segja að það þurfi mótvægisaðgerðir. Það hefur ekki komið fram hversu miklu framkvæmdaraðilinn, Landsvirkjun í þessu tilfelli, væri tilbúinn að fórna af arðseminni til að tryggja laxagengdina. Við höfum ágætisdæmi um það sem er farið yfir í greinargerðinni. Virkjanir í Columbia ánni eru reknar með skertum afköstum til þess að milda áhrif orkumannvirkja á laxagengd, og þannig er vatni hleypt fram hjá virkjuninni þegar seiði ganga niður. Ef það er ein af mótvægisaðgerðunum hefði hún þá ekki væntanleg áhrif á efnahagslegar forsendur virkjunarinnar? Það er aðalmálið í því sem ég er að segja hér.

Þetta skiptir öllu máli ef við ætlum að vera trú þeirri hugmyndafræði að horfa á alla þætti málsins, hina efnahagslegu, samfélagslegu og umhverfislegu. Það er ekki hægt að taka eitthvað eitt út fyrir sviga og segja: Hér er ég komin með eitthvert fakta, heldur þurfum við að horfa á það hvernig þessir þættir spila saman. Í þessu tilviki erum við bara með vegvísi um að mótvægisaðgerðir muni þurfa, ekki nákvæmlega hversu miklar, ekki nákvæmlega hve mikið þurfi til þess að þær virki og við vitum ekki hvaða áhrif þær munu hafa á efnahagslegar forsendur virkjunarinnar.