144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:00]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka forseta þessar viðbótarupplýsingar sem hafa sem betur fer ekki mikil áhrif á forsendur ræðu minnar hér en gagnast engu að síður.

Ég velti fyrir mér af hverju þetta mál fer til atvinnuveganefndar, eins og ég gerði athugasemd við í umræðu um fundarstjórn forseta fyrr á þessum fundi. Nú er það svo að þau lög sem um ræðir fjalla um vernd og nýtingu. Það hlýtur að vera óumdeilt að verndarhlutinn á ekki heima á vegum hv. atvinnuveganefndar. Ég sjálfur set mig niður í pólitík náttúrunnar megin, ég er umhverfisverndarsinni og er af þeim sökum í umhverfisnefnd þingsins. Ég hef mikinn áhuga á þessum málaflokki og vil láta til mín taka á því sviði. Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að ekki eru allir sammála mér í pólitík og hafa aðrar skoðanir á vernd og nýtingu en ég. Það er sjálfsagt mál. En mér finnst, og það er mín upplifun af þessari tillögu hér, að verið sé að reyna að koma í veg fyrir að ég fái að fjalla um þetta mál í nefnd. Mér finnst það mjög óeðlilegt og óheppilegt og það er ekki til þess fallið að skapa sátt um málið. Ég er ekki sáttur og ég veit að þeir sem eru með mér í umhverfis- og samgöngunefnd eru það ekki heldur. Þess vegna finnst mér mjög illa til fundið að gera þetta á þennan hátt.

Síðan finnst mér mjög stórum spurningum ekki vera svarað hvað varðar þann tillöguflutning sem liggur fyrir. Fyrir það fyrsta: Til hvers er virkjað? Með því að flytja Hvammsvirkjun í orkunýtingarflokk er verið að taka ákvörðun sem heimilar virkjun þar. Til hvers er verið að gera það? Hefur orkan verið seld? Er búið að ákveða í hvað hún á að fara? Nei, það liggur ekki fyrir. Hefur verið ákveðið á hvaða verði hún verði seld? Nei, það liggur ekki fyrir. Engir samningar um slíkt. En eru þetta ekki stórar breytur sem hafa áhrif á ákvarðanatökuferlið? Eru þetta ekki þættir sem menn ættu að hafa í huga þegar þeir taka stórar ákvarðanir um vernd og nýtingu landsvæða í landinu okkar? Það finnst mér, en þessi hugsun liggur ekki fyrir.

Ég heimsótti í gær ásamt þingflokki Bjartrar framtíðar eina af stofum Vatnajökulsþjóðgarðs. Þegar maður hugsar um fyrirbærið og veltir fyrir sér fyrirbærinu þjóðgarður, sem er svæði sem þjóðin á sameiginlega — þótt það komi fyrir að innan þjóðgarða séu svæði sem eru í einkaeign er Vatnajökulsþjóðgarður örugglega 95% ef ekki 99% í eigu þjóðarinnar — þá er hugmyndin sú að þarna sé búið að færa landsvæði til verndar. Á jaðri Vatnajökulsþjóðgarðs er Hálslón og gríðarstór virkjun, Kárahnjúkavirkjun, sem var gríðarlega umdeild. Það má segja að í því máli hafi skapast ákveðin sátt á milli nýtingar og verndar þegar á aðra höndina fengu menn þessa virkjun og á hinn bóginn þennan stóra þjóðgarð. Um tíma var hornklofi í kringum Langasjó vegna þess að menn vildu halda því svæði utan sviga til þess að geta mögulega ráðist í virkjun í Skaftá, en síðan hefur því verið breytt, sem betur fer.

Það hafa síðan verið fluttar nokkrar tillögur í þinginu um stofnun annarra þjóðgarða, eins og t.d. í kringum Hofsjökul, og sumir vilja sjá fyrir sér þjóðgarða á öllu miðhálendinu. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að þeir þjóðgarðar sem við höfum, Snæfellsjökull, Þingvalla- og Vatnajökulsþjóðgarður, og friðlöndin ættu öll að vera undir sömu stjórn þannig að menn hefðu heildarsýn og gætu farið með þessi svæði sameiginlega.

Það sem birtist hins vegar í þessum tilraunum manna til þess að skapa þjóðgarða og til þess að halda ákveðnum svæðum fyrir utan sviga í þeim efnum er þetta stanslausa tog á milli ólíkra skoðana og ólíkra hagsmuna. Þegar maður veltir því fyrir sér er þetta birtingarmynd mjög óheilbrigðrar stjórnmálamenningar og óheilbrigðrar ákvarðanatöku, vegna þess að ef það væri eitthvert vit í því hvernig við gerðum hlutina værum við einfaldlega með löggjöf sem verndaði náttúruna. Á grunni þeirrar löggjafar væri síðan tekin ákvörðun um það hvernig við nýttum landið.

Með því að koma hér með eina virkjun, umdeilda virkjun í efri hluta Þjórsár, eru menn á sama hátt og ávallt hefur verið gert í íslenskum stjórnmálum að nota bútasaumsaðferð til þess að taka ákvarðanir. Það er engin heildarsýn. Það er engin langtímaáætlun. Það liggur ekki fyrir sátt. Það eru farnar krókaleiðir við að ná vilja sínum fram. Mál eru flutt og þeim vísað til nefndar þar sem meiri líkur eru á því að þau fari ljúflega í gegn. Það er reynt að koma í veg fyrir að þeir sem standa með náttúrunni fjalli um málaflokkinn. Það er ekki góð aðferð til þess að taka ákvarðanir. Það er ekki góð aðferð til þess að búa til gott samfélag, sátt í samfélaginu.

Er neyðarástand í samfélaginu? Er staðan þannig að við verðum að ráðast í þessa virkjun til að bjarga atvinnuástandi eða eitthvað slíkt? Nei. Það hefur verið hagvöxtur á Íslandi frá 2010, þrátt fyrir hrun. Síðan 2010 hefur verið hagvöxtur á hverju ári. Liggur fyrir kaupandi? Nei. Liggur fyrir verð? Nei. Liggur fyrir heildarsýn um það hvernig menn ætla að fara með framhaldið í vinnunni um rammaáætlun um vernd og nýtingu? Nei. Það er aðeins verið að taka eina virkjun, eina litla virkjun sem er umdeild, út fyrir sviga, taka ákvörðun um hana. Þegar búið er að koma henni í gegn er sú næsta tekin á dagskrá, sem verður þá enn ein lítil saklaus virkjun sem eiginlega enginn skilur hvers vegna einhverjir umhverfisverndarsinnar á Alþingi eru að gera veður út af. Og svo koll af kolli.

Það er sem betur fer þannig að í þeim hagvexti sem við höfum séð hér á síðustu fjórum árum hefur ný atvinnugrein vaxið og skilað miklum tekjum í þjóðarbúið, skapað mikla atvinnu og á mjög jákvæðum forsendum. Það er nefnilega þannig að í ljós kemur að það er mjög eftirsóknarvert fyrir fjöldann allan af fólki að koma til Íslands til þess að upplifa þar hreina og óspillta náttúru. Þess vegna er svolítið kaldhæðnislegt að verða vitni að því að menn viðhaldi hér aðferðafræði sem setur þennan nýja veruleika í uppnám. Ég velti fyrir mér hvernig hægt sé að hafa áhrif á þetta, hvernig hægt sé að breyta þessu.

Ég held að það sé ekki hægt að gera það öðruvísi en með því að almenningur vakni til meðvitundar um það hvernig á þessum málum er haldið. Þess vegna verður að mótmæla þeirri aðferðafræði sem hér er farið fram með. Það er ekki við það unandi að á þennan hátt, með smáskammtalækningum, sé haldið áfram að saxa á þá virkjunarkosti sem menn hafa sett upp á borð og vilja leysa með heildrænum hætti í rammaáætlun. Það er vond pólitík, gamaldags pólitík, hún er ekki neinum til framdráttar og hún verður ekki samfélaginu til gæfu.

Þess vegna skora ég á meiri hlutann í þinginu að hugsa sig um, reyna að búa þannig um hnútana að hægt sé að mynda hér sátt til framtíðar í þessum málaflokki, eins og grunnurinn er í þeirri löggjöf sem við störfum eftir um vernd og nýtingu.