144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:11]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágæta ræðu og fyrir að lýsa sínum sjónarmiðum, en ég vil nota tækifærið og upplýsa hann ef hann hefur ekki verið búinn að átta sig á því að hann fær að fjalla um málið í umhverfis- og samgöngunefnd ef þingið fer eftir óskum hæstv. ráðherra. Þótt það verði umsögn fær nefndin að ræða málið.

Mig langar að spyrja hann hvort honum þætti það ekki fyrst ólíklegt eða hvort það væri ekki skrýtið og óeðlilegt ef búið væri að selja orkuna og hún væri enn þá í biðflokki. Getum við ekki fallist á það að fyrst ákveðum við hvað við gerum við orkuna þegar hún er komin í nýtingarflokk? Mér finnst að minnsta kosti óeðlilegt ef við færum að selja orkuna meðan hún væri í biðflokki.

Kannski í framhaldi af því: Hvað ef það væri þannig að búið væri að selja þessa orku, er hv. þingmaður alfarið á móti þessari virkjun ef það væri eitthvert hámarksverð eða einhver lágmarksarðsemi sem hann færi fram á?