144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:26]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Fyrst vil ég gera að umtalsefni til hvaða nefndar þessi mál eigi að fara. Mín skoðun er einfaldlega sú sama og hún var á síðasta kjörtímabili, að þessi málaflokkur eigi heima hjá þeirri nefnd sem hefur ávallt fjallað um hann í þinginu, þ.e. atvinnuveganefnd og forverum hennar hér áður. Sú breyting var gerð á síðasta kjörtímabili að færa málið yfir til umhverfisnefndar og við í minni hlutanum mótmæltum því harðlega á þeim tíma og gerðum við það athugasemdir. Það þarf ekki að koma neinum á óvart að við breytum því aftur núna. Það var engin sátt í því efni ef menn telja að það hafi verið reynt að leita einhverra sátta. Og að tala hér um að þessi mál séu komin með heimilisfesti í nefnd sem náði svo mikilli sátt um ákveðin mál og það sé verið að troða á sjónarmiðum ákveðins hóps — ég hef stýrt atvinnuveganefnd frá því að við komum saman á þessu kjörtímabili og það hefur verið mjög góð sátt á þeim bæ. Ég vil bara minna á afgreiðslu laga um fiskveiðistjórn og veiðigjöld í vor og fleiri mál sem við höfum (Gripið fram í.) náð ágætlega saman um í nefndinni, stórmál. Samstarfið þar hefur verið ágætt og engin ástæða til að draga það hér upp sem einhverja staðreynd að það sé mikill ágreiningur í þeirri nefnd og að umhverfisnefnd sé þess vegna miklu betur til þess fallin að fjalla um þessi mál.

Ef við tökum aðra málaflokka sem atvinnuveganefnd fjallar um, eins og málefni sjávarútvegs, þá erum við auðvitað að tala um verndarmálefni þar. Við erum að tala um vernd og nýtingu fiskstofna. Á það þá ekki á sömu forsendum að fara yfir til umhverfisnefndar? (Gripið fram í: Já.) Nákvæmlega. Erum við ekki að tala um skógrækt og landgræðslu í atvinnuveganefnd? Af hverju eru þeir málaflokkar þar? Eiga þeir ekki að fara til umhverfisnefndar líka? Og hvað með landbúnað eins og ég kom inn á áðan? Af hverju fór áburðarmálið og fleiri málefni landbúnaðarins til atvinnuveganefndar? Er það ekki bölvuð vitleysa? Snýr þetta ekki allt að umhverfinu?

Mörg mál sem við fjöllum um snerta með einum eða öðrum hætti umhverfi okkar, náttúru landsins og koma inn á umhverfisþætti. Hér var kallað fram í „já“ við öllum þeim atriðum sem ég las upp og þá er lítið eftir annað en að leggja atvinnuveganefnd þingsins niður. Það er kannski það sem hv. þingmenn vilja inn við beinið. (Gripið fram í.)

Rammaáætlun er gríðarlega mikilvægt plagg. Hún er stjórntæki og auðvitað sú leið sem var sett af stað í stjórnartíð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks til að reyna að ná sátt og langtímasýn á milli verndar og nýtingar á þeim virkjunarkostum sem við eigum í landinu. Áætlunin fjallar í senn um vernd og nýtingu og er um leið ákveðið efnahagslegt stjórntæki. Það er ekki síður mikilvægt fyrir nýtingarþáttinn að horft sé til langs tíma, að fyrir liggi áætlun til lengri tíma um það hvernig við ætlum að nýta virkjunarkostina í landinu svo að þeir aðilar sem ætla að byggja hér virkjanir, Landsvirkjun og önnur orkufyrirtæki, geti gert langtímaáætlanir og byggt upp jafnt og þétt þannig að efnahagsáhrifin nýtist sem best af slíkum framkvæmdum. Einnig er mikilvægt að þeir geti undirbúið markaðsvinnu sína, söluvinnuna, og svarað eftirspurn erlendis frá frá fyrirtækjum sem vilja setja upp starfsemi í landinu og kaupa hér orku þannig að hægt sé að búa til einhverja áætlun og svara þessum fyrirtækjum hvenær verði mögulegt að afhenda þeim orku til starfsemi þeirra.

Hvernig farið var með málið á síðasta kjörtímabili var auðvitað ekkert annað en mjög gróf pólitík sem setti þá sáttaumgjörð sem lagt var upp með í algert uppnám. Þetta vita allir hv. þingmenn. Fingraför þáverandi hæstv. ráðherra voru þannig á málinu að það var engin sátt í pípunum í þeim efnum og gat ekki orðið.

Við í minni hlutanum á þeim tíma lögðum til að málið yrði sent til fyrrverandi verkefnisstjórnar og hún yrði látin raða virkjunarkostunum í samræmi við þá niðurstöðu sem hún hafði náð. Það var ekki hlustað á það þó að það væri sáttaútspil. Við vorum tilbúin að sætta okkur við niðurstöðu verkefnisstjórnarinnar sem hafði unnið að verkefninu í nokkur ár, ásamt faghóp, og við erum tilbúin að gera það. Þetta varð til þess að allt að þriggja til fjögurra ára töf varð á því að hægt væri að búa til þá langtímasýn sem við þurfum í nokkrum mjög mikilvægum þáttum í rammaáætlun, sem hefur auðvitað gríðarleg efnahagsleg áhrif fyrir landið. Hér er verið að reyna að draga úr þeirri töf þó ekki nema að litlu leyti sé.

Það hefur verið fullyrt í þessari umræðu að ferðamenn komi hingað til að skoða óspillta náttúru — og hvað? Þeim fjölgar sem aldrei fyrr. Eru þeir bara að fara upp á hálendi Íslands að skoða algerlega óspillta náttúru? Hvað þegar þeir fara í Bláa lónið eða þegar þeir fara tugþúsundum ef ekki á annað hundrað þúsund saman og skoða orkufyrirtækin okkar, virkjanirnar okkar, Hellisheiði? Er það að skoða óspillta náttúru? Eða á það við þegar þeir keyra inn að Kárahnjúkavirkjun eftir vegi sem þeir komast núna? Þetta er málflutningur sem stenst ekki og við eigum ekki að nálgast málið á þessum nótum. Við þurfum að feta línuna milli verndar og nýtingar. Það er enginn vilji til annars en að fara þá leið.

Hér var fullyrt áðan af hv. þm. Róberti Marshall að við ákvörðun um að setja virkjunarkost í nýtingarflokk væri búið að ákveða að virkja. Það er alger misskilningur og mjög mikilvægt að leiðrétta þann misskilning. Þegar virkjunarkostur er settur í nýtingarflokk er mikil vinna eftir. Þá er allt umhverfismat eftir. Þá á eftir að meta öll áhrif á náttúruna. Þá á eftir að fara í gegnum mikið ferli áður en tekin verður ákvörðun um það hvort við virkjum á staðnum eða ekki, hvernig staðið verður að viðkomandi virkjun eða hvernig hún verður byggð. Þetta er algert grundvallaratriði. Að halda því svo fram í sömu umræðu að það sé bara tekin ákvörðun um þennan virkjunarkost og ekki sé búið að selja raforkuna. Það er ekki einu sinni búið að taka ákvörðun um að virkja; raforka er ekki seld fyrr en það liggur fyrir og hvenær hægt er að afhenda hana. Þetta helst allt í hendur.

Það hefur verið gert dálítið úr mótvægisaðgerðum varðandi laxinn í Þjórsá. Í niðurstöðum verkefnisstjórnar kemur fram að hún telji „að til þess að hægt verði að taka afstöðu til Holtavirkjunar og Urriðafossvirkjunar þurfi að liggja fyrir upplýsingar um markmið fyrir mótvægisaðgerðir sem miða að verndun fiskstofna, eftirlits- og viðbragðsáætlun með lýsingu á viðbrögðum ef markmiðum er ekki náð“ o.s.frv.

Virðulegi forseti. Í meðförum þingsins á fyrri stigum hefur það ítrekað komið fram bæði hjá Landsvirkjun og hjá Veiðimálastofnun að enginn laxastofn í landinu hefur verið rannsakaður eins mikið og eins lengi og laxastofninn í Þjórsá. Í á annan tug ára hafa verið samfelldar rannsóknir. Mótvægisaðgerðir hafa verið hannaðar og það á auðvitað eftir að koma í ljós hvernig þær munu virka; það er búið að gera af þeim líkan, það er búið að reyna eins og hægt er að meta áhrifin á stofninn. Allt bendir til þess og reynsla erlendis frá líka að mótvægisaðgerðirnar muni virka vel. Það er auðvitað ekki hægt að skrifa upp á það fyrir fram, en meira verður ekki rannsakað. Það hefur ítrekað komið fram að þetta er fullrannsakað eins langt og það nær. Það er því fyrirsláttur og ekkert annað að þetta þurfi að rannsaka betur. Við getum endalaust verið í þeim fasa. Það hlýtur að vera verkefni hv. atvinnuveganefndar að meta kosti eins og Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun. Það hlýtur að verða verkefni okkar nefndarmanna að meta þá út frá því að það er bara þessi fyrirstaða af hálfu verkefnisstjórnarinnar, sem er lögð til grundvallar því að setja þá ekki í nýtingarflokk.

Ég vil rétt að lokum rifja það upp að allir þessir virkjunarkostir ásamt nokkrum fleiri voru á sínum tíma settir í nýtingarflokk af þeirri verkefnisstjórn sem vann að því í nokkur ár og þeim faghópum sem með henni (Forseti hringir.) unnu. Samstaða var (Forseti hringir.) um þá niðurstöðu.