144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:43]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var ekkert að horfa á eigið skinn áðan eða eigin nafla eins og hv. þingmaður orðaði það þegar ég fjallaði um það til hvaða nefndar málið ætti að fara. Hv. þm. Róbert Marshall fór yfir það fyrr í umræðunni að hann væri mjög ósáttur við það að fá þetta ekki til umhverfisnefndar af því að þar á hann sæti. Björt framtíð á mjög góðan fulltrúa í atvinnuveganefnd eins og allir aðrir flokkar og ég ræð ekkert einn ferðinni þar þó að ég sé í formennsku fyrir þá nefnd. Ég sagði einfaldlega það sem kom mjög skýrt fram í ræðu minni áðan að við umfjöllun okkar um þetta mál hljótum við að kalla alla þá til skrafs og ráðagerða sem nefndarinnar er von og vísa að gera og gert er almennt í nefndarstörfum sem um þetta mál eiga að fjalla, þar á meðal opinbera aðila.

Hér eru leiddar fram nýjar upplýsingar sem eru gefnar sem forsendur fyrir því að færa ekki þessa virkjunarkosti í nýtingarflokk. Ég er ekki að boða það að ég ætli að leggja það til innan nefndarinnar að fleiri virkjunarkostir verði færðir í nýtingarflokk, en við hljótum að fjalla um það sem þarna kemur fram eins og annað sem kemur fram í þessari lagasetningu. Það er bara eðli máls. Þarna koma fram upplýsingar sem eru gefnar sem forsendur fyrir niðurstöðu nefndarinnar sem eru fyrir mér alveg nýjar og stangast algjörlega á við það sem áður hefur komið fram hjá opinberum aðilum um þessi mál.