144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:45]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Við þekkjum það að ákvarðanir sem eru teknar á grundvelli rannsókna og raka eru auðvitað ógn við geðþóttaákvarðanir. Mér finnst furðulegt að heyra hv. formann nefndarinnar, sem virðist vera búinn að telja sig öruggan um að fá þetta mál inn í sína nefnd, tala eins digurbarkalega og hann gerði undir lok ræðu sinnar. Hann fullyrðir að allt sem lúti að löxunum í Þjórsá sé fullrannsakað og þar sé ekki nýrra staðreynda að leita og að það sé eiginlega fyrirsláttur að fara ekki í virkjanir á öllum þremur kostunum eða að samþykkja þá ekki sem virkjunarkosti því að þetta sé fullrannsakað.

Ég vildi spyrja hv. formann atvinnuveganefndar hvort hann skildi textann öðruvísi en ég. Hér segir með beinni tilvitnun, með leyfi forseta:

„Í niðurstöðum verkefnisstjórnar kemur jafnframt fram að hún telji að til þess að hægt verði að taka afstöðu til Holtavirkjunar og Urriðafossvirkjunar þurfi að liggja fyrir upplýsingar um markmið fyrir mótvægisaðgerðir …“

Síðan er farið yfir fleiri þætti eins og hvaða viðbótarrannsóknir þurfi og slíkt en megináhersla er lögð á mótvægisaðgerðir. Mér fannst eins og þingmaðurinn reyndi nánast að villa um fyrir mönnum og léti í það skína að verkefnisstjórnin væri á villigötum þegar hann talaði bara um þennan rannsóknaþátt í ræðu sinni af svo miklum krafti að það kallaði tvo þingmenn í andsvör.