144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:47]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það verður sennilega þannig í þessum málaflokki að við eigum eftir að deila lengi. Það er einfaldlega ákveðin gjá á milli skoðana manna í þessum málum og ekki von á öðru en að tekist verði á um þessi mál í umræðunni. Það er mikilvægt að það verði gert með málefnalegum hætti og öll rök leidd fram í þeirri umræðu og að við reynum að ná einhverri niðurstöðu sem mest sátt getur orðið um, þó að ég geri mér ekki vonir um að hún verði hinn endanlegi sannleikur hjá öllum.

Þegar talað er af yfirlæti um það að formaður atvinnuveganefndar sé svo viss í sinni sök að fá málið til sín og eitthvað því um líkt þá er það hluti af þessu og auðvitað ekki málefnalegt. Ég hef farið yfir rökin fyrir því af hverju við teljum að þetta mál eigi heima hjá þeirri nefnd og það er ekkert nýtt í því. Það er einfaldlega skoðun þessara flokka og var það á síðasta kjörtímabili og hefur alltaf verið. Ég hef farið yfir margvíslegan rökstuðning í þeim efnum.

Já, það er rætt um mótvægisaðgerðir, að eitthvað þurfi að liggja fyrir um mótvægisaðgerðir gagnvart laxastofninum í neðri hluta Þjórsár áður en farið verður að virkja þar. Það er alveg rétt. Upp úr því hefur verið mikið lagt og áhersla lögð á málið. Einnig hefur komið fram að jafnvel þurfi að taka tillit til þess til hvaða mótvægisaðgerða sé hægt að grípa til að breyta áhrifum á Urriðafoss, hvort hægt sé að fara í einhverjar mótvægisaðgerðir. Nú liggja fyrir upplýsingar um að Landsvirkjun hafi gert það.

Varðandi laxastofninn þá er búið að útfæra mótvægisaðgerðir. Það er búið að gera tilraunir með þær. Það er búið að rannsaka laxastofninn samkvæmt upplýsingum Veiðimálastofnunar eins mikið og hægt er. Enginn laxastofn í landinu hefur verið eins mikið rannsakaður. (Forseti hringir.) Það er búið að hanna seiðafleytuna. Það er búið (Forseti hringir.) að bregðast við þessu og lengra verður ekki (Forseti hringir.) gengið. Nú verður að reyna á það sem menn (Forseti hringir.) hafa lagt upp með.