144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:50]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Við erum mjög lukkuleg hérna á Íslandi. Við höfum aðgang að hreinni orku og meira að segja þokkalega mikilli orku. Núverandi aðstæður í orkubúskap Íslendinga eru hins vegar mjög áhugaverðar. 80% þeirrar orku sem við framleiðum fara til einnar tegundar stóriðju og einhver góð prósent í viðbót til annarrar tegundar stóriðju, þ.e. til iðnaðar sem er orkufrekur og mengandi.

Í hvert skipti sem samfélagsumræðan fer í gang um orkumál á Íslandi, sérstaklega þegar umfjöllunarefnin eru orkunýting til stóriðju, þá snýst orðræðan yfirleitt um andstöðu. Ég spyr: Af hverju berast þau skilaboð ekki inn á þing?

Ef ég má, með leyfi forseta, vitna aðeins í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar þar sem meðal annars er talið upp:

„Nýta ber vistvæna orkugjafa enn frekar við samgöngur. […] dregið verði úr notkun jarðefnaeldsneytis. […] Náttúra landsins er ein helsta auðlind þess. Verndargildi á hverjum stað þarf að meta á faglegan hátt með víðtæku samstarfi …“

Þetta er allt mjög gott. Þarna er talað um rammaáætlun líka, um vernd og orkunýtingu landsvæða sem verður endurskoðuð á grundvelli niðurstaðna faghópa, sérfræðinga sem verkefnisstjórn skipaði. Það er allt gott og blessað, en mér finnst vera pínulítið ósamræmi í þessari tillögu og því sem kemur þarna fram um umhverfismál, sérstaklega ef maður hoppar yfir í annan lið í stjórnarsáttmálanum, um olíu og gas, þar sem er talað um nýtingu hugsanlegra olíu- og gasauðlinda. Það passar ekki alveg við að dregið verði úr notkun jarðefnaeldsneytis.

Ef ég sný mér aftur að þessari tillögu þá er mér alveg sama hvort málið fari til einnar nefndar eða annarrar. Tillaga sem fjallar hins vegar um áhrif á laxastofn og þá mögulegan útdauða hljómar mjög umhverfisleg í mínum eyrum.

Mér finnst samt alvarlegra að almenningur fái ekki málið á sitt borð, ekki endilega nákvæmlega þetta mál heldur orkunýtingarmálin almennt, og fái þannig tækifærið til að semja og samþykkja almenningsályktun. Hv. þm. Katrín Júlíusdóttir nefndi frið um málaflokkinn. Þannig gæfist þjóðinni tækifæri til að skila til stjórnvalda, löggjafar- og framkvæmdarþjónustu, áliti sínu um hversu hátt hlutfall orkuframleiðslu Íslendinga skyldi fara í stóriðju, í nærsamfélag o.s.frv. Ég mundi alla vega velja mismunandi hvort ætti að virkja eða ekki eftir því í hvað orkan ætti að fara. Ég býst við að fleiri vilji hafa sama val. Ég kalla í rauninni eftir því að þetta verði rætt víðar en bara hérna innan húss. Á því er þörf.