144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:55]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Ég held að ég geti ekki annað en hafið mál mitt á því að gera alvarlega athugasemd við þá tillögu hæstv. ráðherra að þingsályktunartillagan fari til umræðu og úrvinnslu í atvinnuveganefnd eins og hér hefur komið fram. Ástæðan fyrir því, eins og við erum búin að ræða, er sú að það hefur ekki verið rökstutt með fullnægjandi hætti. Það er svolítið sérstakt, finnst mér en hef svo sem kannski ekki mjög mikla þingreynslu, að umhverfis- og auðlindaráðherra mæli fyrir máli sem hann sendir svo frá sér í einhverja allt aðra nefnd en hann eða hans ráðuneyti hefur með að gera. Þetta er mjög athugunarvert, enda vitum við — það er staðreynd — að rammaáætlunin heyrir undir umhverfis- og auðlindaráðherra og ráðuneytið og eins og kom fram áðan fjallaði umhverfis- og samgöngunefnd ítrekað um rammaáætlun á síðasta þingi, það álitamál og forsendur þess. Margir gestir komu á fund nefndarinnar og ég held að við deilum ekki um það að heildarsýnin yfir rammaáætlun sé tvímælalaust í umhverfis- og samgöngunefnd. Sú tillaga ráðherrans að vísa málinu til atvinnuveganefndar er skref sem segir að hér eigi að efna til ófriðar.

Tillagan um rammaáætlun er byggð á þeim lögum og ferlum sem við á Alþingi komum okkur saman um og það var víðtækt samráð. Þess vegna hefði ég talið að hæstv. ráðherra væri umhugað um að framvindan í þessu máli væri í þokkalegri sátt við þingið. Eins og hæstv. ráðherra hefur orðið var við og hefur væntanlega verið meðvitaður um fyrir þessa umræðu fylgir ófriður þessu vali hans á nefnd.

Þá spyr maður sig: Hvert er hið raunverulega tilefni þessa ófriðar um það hvert á að vísa þessu máli og hvar því er best fyrir komið þannig að heildarsýnin haldist á málaflokkinn? Ég átta mig ekki á því. En af því að hæstv. ráðherra las úr þingsköpunum áðan er vert að rifja aftur upp það sem stendur í 13. gr., með leyfi forseta, um umhverfis- og samgöngunefnd:

„Nefndin fjallar um umhverfismál, skipulags- og byggingarmál og rannsóknir, ráðgjöf, verndun og sjálfbærni á sviði auðlindamála almennt.“

Það er nefnilega líka til forsetaúrskurður um umhverfis- og auðlindaráðuneytið þar sem finna má sambærilegan texta og þar að auki er rætt um rammaáætlun enda er um að ræða þingsályktun sem hér er breytingartillaga um og sú tillaga er um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

Virðulegi forseti. Í ljósi þess að hér hafa komið fram skiptar skoðanir ætla ég að leggja fram formlega tillögu um að málið fari í hv. umhverfis- og samgöngunefnd. Ég geri það hér með að tillögu minni og ef þarf að kjósa um það verði það gert eins og kom fram í máli forseta fyrr í umræðunni eða hvaða aðra leið sem þarf að fara í þeim efnum.

Það er miður að sá ófriður sem hér er búið að efna til verði til þess að við tökumst ekki á um efnislegt innihald þessarar tillögu og þann rökstuðning sem að baki hennar liggur. Það er það sem við ættum að gera en ekki að fjasa um málsmeðferð. Það er bara ekki annað hægt en að ræða þetta á þeim nótum, því miður. Hér er verið að snúa því á haus og þar með varpa skugga á það sem ég hefði haldið að ráðherranum væri í mun að umræðan færi að snúast um á þessum tímapunkti.

Við þurfum að horfast í augu við það að hér vorum við búin að búa okkur til ákveðið ferli. Við getum verið ósammála eða sammála einhverjum tilteknum skrefum í þessu ferli en þetta er ferlið sem er eini mögulegi umbúnaðurinn um sáttagrundvöll í þeim erfiðu átakamálum sem við höfum horft upp á ítrekað, ekki bara undanfarin ár heldur áratugi, um þessi viðkvæmu mál. Ég hefði sannarlega viljað sjá að við værum komin á þann stað að við gætum fetað okkur inn í það að vinna samkvæmt þessu verklagi sem við komum okkur saman um á þinginu. Síðan getum við tekist á um röksemdir, við getum verið sammála þeim eða ósammála en málið er að færa rök í ræðustóli Alþingis fyrir okkar máli og ganga svo til atkvæða eins og upplýst þing á að gera. Það er það sem við ættum að vera að gera hér en ekki takast á um það sem við erum að gera hér og nú. Þetta snýst ekki bara um eitthvert einfalt verklag í þinginu og hver fari með málið. Þetta er málsmeðferðartillaga og hún gjörbreytir þessari umræðu.

Það var í boði, hæstv. ráðherra, að vinna áfram með þessa tillögu á efnislegum grunni í samræmi við þá málsmeðferð sem var viðhöfð á þinginu og varðar rammaáætlun og þann framgangsmáta en nú hefur hæstv. ráðherra rofið þá sátt. Það er miður að rjúfa sátt sem búið er að leggja svo mikla vinnu í eins og við þekkjum sem hér sitjum með þeim hætti sem hér er gert af því að það er óþarfi. Við hefðum átt að halda málinu í þeim farvegi að hafa það áfram í umhverfis- og samgöngunefnd þar sem við vitum að hefði — eins og kom líka fram fyrr í dag hefur þar náðst víðtæk sátt um erfið mál, ekki það að ég efi að það geti gerst annars staðar. Eins og ég sagði áðan hefur verið mikið um þetta fjallað. Þetta er hluti af rammaáætlun og mjög óeðlilegt að taka þennan staka hluta út úr henni og setja í annan farveg. Það getur ekki verið stjórnsýslulega gott. Það er það sem við eigum að hafa fyrir augum, að við viljum bæta stjórnsýsluna, gera hana meira upplýsandi, skilvirkari, gegnsærri og faglegri. Við eigum að sækja mestu þekkinguna þar sem hún er til staðar og þar sem fólk er búið að fjalla mjög ítarlega um málið.

Margar umsagnir komu fram um þetta mál á síðasta þingi. Þar eru ýmsir hagsmunir og ég verð að taka undir þá hagsmuni sem hér hafa aðeins verið reifaðir í dag um hinn samfélagslega hátt. Ég tel mjög óeðlilegt að fara í svo stóra framkvæmd sem hér er um að ræða af því að það eru mjög skiptar skoðanir um þetta á þessu svæði. Við skulum ekki gleyma því. Það er miklu meiru raskað en bara landi, það er raskað heilmiklu í nærsamfélaginu sem getur orðið til þess að eitthvað brestur sem við ekki sjáum fyrir.

Ég held að það sé óráðið að gera þetta og legg enn og aftur áherslu á að ég geri að tillögu minni að þetta fari eins og rammaáætlun til umhverfis- og samgöngunefndar og fái þar sinn framgang og þá faglegu umræðu sem er búin að eiga sér stað þar.