144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

störf þingsins.

[15:08]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Fyrsta þingmannamál Framsóknarflokksins á þessum þingvetri, sem mælt var fyrir hér í þingsal fyrir nokkru, var þingsályktunartillaga þess efnis að fela hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra að hefja vinnu við útreikning nýrra neysluviðmiða fyrir íslensk heimili. Samkvæmt tillögunni er lagt til að útreikningarnir verði unnir í samráði við hlutaðeigandi aðila. Þessir hlutaðeigandi aðilar geta til dæmis verið einhverjir frá ríki eða sveitarfélögum, hagsmunasamtökum er varða heimilin, verkalýðshreyfingunni og þannig mætti áfram telja.

Í þingsályktunartillögunni er meðal annars lagt til að gerð verði könnun á raunframfærslukostnaði einstaklinga og fjölskyldna í landinu. Þessi raunframfærslukostnaður verði nýttur til að finna út lágmarksneysluviðmið og að til verði reiknilíkan sem stuðst verði við. Reiknilíkanið verði gert opinbert eins og þau eru í þeim löndum er við berum okkur saman við. Má þar nefna Noreg, Danmörku og Svíþjóð.

Virðulegur forseti. Ástæða þess að ég minni á þingsályktunartillöguna hér í störfum þingsins er sú að nauðsynlegt er að ítreka mikilvægi þess að endurútreikningarnir fari fram. Mikil umræða hefur verið í þjóðfélaginu okkar og á samfélagsmiðlum undanfarna daga, meðal annars vegna fjárlagafrumvarps og kostnaðar við matarinnkaup heimilanna. Fram hefur komið í fjölmiðlum að talsverður munur sé á milli þeirra útreikninga sem fjármálaráðuneytið leggur fram um matarkostnað heimilanna og þess sem Hagstofa Íslands miðar við. Það væri til bóta ef í allri umræðu væri til tala sem hægt væri að vera sammála um að væri sú rétta og hægt væri að miða ýmsa útreikninga út frá.

Vegna þessarar umræðu og þeirra staðreynda sem uppi eru um þetta misræmi vil ég leggja áherslu á að afar brýnt er að þessi tillaga fái þinglega meðferð í velferðarnefnd og reynt verði eftir fremsta megni að koma þessu verkefni til þess ráðherra er hefur með málaflokkinn að gera, þ.e. til hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra.