144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

störf þingsins.

[15:13]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Í Kastljósi í gær var fjallað um meinta markaðsmisnotkun stóru skipafélaganna. Félögin eru grunuð um og virðast hafa skipt íslenska samfélaginu á milli sín hvað varðar þjónustu við almenning og verðlagningu á flutningi á vörum til landsins og innan landsins. Þetta er því miður gömul saga og ný og Íslendingar hafa mátt búa við slíka misnotkun af hálfu stórfyrirtækja allt of lengi.

Við getum rifjað upp ótal dæmi þessu til stuðnings, m.a. úr verslunargeiranum, matvöru- og byggingarvörumarkaðnum svo dæmi séu tekin. Hver man ekki eftir grænmetismálinu fyrir ekki svo mörgum árum? Þekkt er hvernig olíufélögin hafa hagað sér hvað þetta varðar og þá má einnig rifja upp dæmi tengd fluginu, tryggingafélögum, kreditkortafyrirtækjum, póstinum og fleira og fleira sem ekki vinnst tími til að nefna hér.

Í því ljósi er merkilegt að fylgjast með viðbrögðum stjórnvalda nú við markaðsmisnotkun MS, sem mikið hefur verið fjallað um að undanförnu. Þau virðast vera á þann veg að í stað þess að reyna að koma í veg fyrir misnotkunina sé besta ráðið að skella framleiðslu og sölu á mjólk og mjólkurafurðum til íslenskra heimila inn á hinn svokallaða frjálsa markað, helmingaskiptamarkaðinn, og láta hann um að þjarma að heimilunum í landinu. Með öðrum orðum, lausnin virðist felast í því að einkavæða misnotkunina, skipta henni samkvæmt gömlu, góðu helmingaskiptareglunni á hinum svokallaða frjálsa markaði.

Einhver gæti hins vegar ályktað að það væri nú fullreynt að treysta hinum svokallaða frjálsa markaði fyrir því að þjónusta almenning í landinu svo vel fari. Þegar skipafélög sem hafa ekkert skipa sinna skráð á Íslandi, borga hvorki skatta né skyldur til íslensks samfélags af þeim, eru komin í þennan bisness líka, er þá ekki kominn tími til að velta upp nýjum leiðum? Jú, það er kominn tími til þess að við leggjum af þessa gömlu helmingaskiptahugsjón og tryggjum eðlilega og sanngjarna þjónustu (Forseti hringir.) við fólkið í landinu. Það verður ekki gert með því að (Forseti hringir.) henda því í kjaftinn á gráðugum einkabisness, (Forseti hringir.) því liði er ekki treystandi.