144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

störf þingsins.

[15:33]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegi forseti. Vissulega hafði Framsóknarflokkurinn það að stefnu sinni í aðdraganda kosninga að afnema verðtryggingu af neytendalánum og sá sem hér stendur hefur sannfæringu fyrir því að það væri farsælt. Unnið hefur verið að þessu markmiði. Eins og hv. þingmaður kom inn á þá skilaði sérfræðihópur skýrslu sinni í lok janúar og síðan hefur verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála haft tillögur meiri hlutans og minni hlutans til skoðunar, sem er líka mikilvægt.

Í framhaldi af þessu hefur verið hafist handa og þá vitna ég í upplýsingar sem eru á vefsíðu forsætisráðuneytisins frá 9. maí. Þar kemur fram að í framhaldi af þessu hafi verið unnið að tillögum sem felast meðal annars í því að fara að tillögum meiri hlutans í verkefnisstjórninni um afnám verðtryggingar, en líka með hliðsjón af séráliti minni hlutans. Miðað er að því að frá og með 1. janúar 2015 verði óheimilt að bjóða neytendum verðtryggð lán með jöfnum greiðslum til lengri tíma en 25 ára, í öðru lagi að lágmarkstími nýrri neytendalána verði lengdur í allt að tíu ár, takmarkanir verði gerðar á veðsetningu vegna verðtryggðra íbúðalána og hvatar auknir til töku og veitingar á óverðtryggðum lánum. Ýmsum mótvægisaðgerðum sem grípa þarf til í því skyni í leiðinni verður líka velt upp.

Ég hef tekið eftir því að á þingmálaskrá fjármálaráðuneytisins eru frumvörp sem munu koma fram núna á haustmánuðum. Væntanlega mun velferðarráðuneytið hafa umsjón með því máli er snýr að því að auka hvata til töku og veitingar óverðtryggðra lána. Það er verið að vinna að því að efna það loforð. Síðan segir að á árinu 2016, þegar reynsla verður komin á þær breytingar sem nú standa til, verði ráðist í næsta skref sem er að afnema (Forseti hringir.) verðtryggingu að fullu.

Ég kemst því miður ekki í að svara þessu með gjaldeyrishöftin.