144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

takmarkað aðgengi að framhaldsskólum.

[15:51]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda umræðuna. Á undanförnum dögum hefur hver skólamaðurinn eftir annan lýst verulegum áhyggjum af stöðu hins íslenska framhaldsskóla. Þar er af ýmsu að taka.

Skólameistarar þeirra skóla sem hafa þróað dreifnám á undanförnum árum hafa lýst vonbrigðum með þær fyrirætlanir hæstv. menntamálaráðherra að skerða fjárveitingar til þess náms verulega, í sumum tilfellum fella þær jafnvel alfarið niður. Dreifnám hefur sannað sig sem árangursríkt form náms í hinum dreifðari byggðum og hefur leitt til þess að stöðugt hærra hlutfall íbúa þeirra svæða hefur stundað nám í framhaldsskólum. Endurskoðun viðmiða um nemendaígildi er boðuð. Það þýðir einfaldlega að verulega er dregið úr fjárveitingum því fjárveitingar til skólanna eru byggðar á þeim ígildum.

Það á sem sagt að halda áfram að skera niður kerfi sem er fyrir talsverðu síðan komið inn úr beini og inn í merginn. Niðurskurður í framhaldsskólakerfinu fæst í gegnum launakostnað. Allur annar kostnaður er í algjöru lágmarki. Svo fyrir skólameisturum landsins liggur að fækka enn á ný starfsfólki. Það fæst einungis fram með því að stækka námshópa. Stækkun námshópa, hvernig ná menn því fram? Jú, með því að fella niður fámennari hópa.

Það að fella niður fámenna hópa er ávísun á minni fjölbreytni í möguleikum til náms og dregur enn úr námsvali, sem er það sem fulltrúar nemenda hafa ítrekað talað um að þeir telji helst vanta upp á í núverandi kerfi.

Við í Bjartri framtíð leggjum áherslu á aukna fjölbreytni og sveigjanleika í námi. Við teljum það einfaldlega ranga stefnu að krefjast stöðugt meiri einsleitni til að fella alla í sama mót. Við deilum áhyggjum þeirra skólameistara sem hafa lýst þeirri stöðu sem uppi er í framhaldsskólum landsins þar sem þeir telja m.a. að kerfið hafi skaðast nú þegar.

Virðulegi forseti. Hvítbók hæstv. ráðherra er góðra gjalda verð en nú er nóg komið af niðurskurði embættismanna í menntakerfinu, kominn tími á heildræna umræðu við fulltrúa framhaldsskólans um hvernig hægt er að snúa við blaðinu og hefja uppbyggingu kerfisins á ný.