144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

takmarkað aðgengi að framhaldsskólum.

[15:53]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér takmarkað aðgengi að framhaldsskólum eða öllu heldur forgangsröðun. Ég tel tímabært að taka umræðu um skilvirkni og verkaskiptingu ýmissa aðila sem vinna að fullorðinsfræðslu því að við þróun fullorðinsfræðslunnar síðustu árin hefur óhjákvæmilega orðið ákveðin skörun milli framhaldsskóla, sérskóla, símenntunarmiðstöðva og ýmissa ráðgjafarverkefna tengdum félagsþjónustu og vinnumarkaðsúrræðum. Jafnframt tel ég að stíga verði varlega til jarðar og ræða þessi mál í stærra samhengi en því hvernig fjárlög næsta árs líta út. Þessi umræða þarf að snúast um þarfir einstaklinga og samfélags og nýtingu fjármuna.

Mig langar að nota tækifærið og segja ykkur litla sögu. Árið 2000 buðu framhaldsskólarnir á Austurlandi saman upp á fjarnám fyrir fólk sem var að hefja nám eftir langt hlé. Í þessu námi byrjuðu yfir 20 nemendur á nokkrum stöðum á Austurlandi og fengu þeir góðan stuðning í byrjun. Skemmst er frá því að segja að margir af þeim sem þarna hófu nám aftur héldu áfram í ýmiss konar framhaldsnámi og hafa nú lokið háskólanámi. Þetta hafði meðal annars þá þýðingu fyrir Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar að haustið 2009 var hann í fyrsta skipti frá stofnun eingöngu mannaður réttindakennurum en þá höfðu fjórir leiðbeinendur við skólann lokið kennaranámi í fjarnámi, auk þess sem leiðbeinendur við leikskóla höfðu lokið leikskólakennaranámi. Jafnframt varð fjarnámið hvati fyrir aðra kennara að bæta við sig námi og nú er hluti þeirra sem hófu framhaldsskólanám árið 2000 að ljúka mastersnámi. Gæti þetta haft áhrif á niðurstöður úr næstu PISA-könnun?

Það sem ég vil koma á framfæri með þessari sögu er að við þurfum að horfa á stóru myndina en ekki er þar með sagt að við getum ekki og þurfum ekki að gera breytingar á skólakerfinu.