144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

takmarkað aðgengi að framhaldsskólum.

[15:55]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Mig langaði að athuga hvort ég skildi þetta rétt. Það virðist vera munur á verknámi annars vegar og bóknámi hins vegar. Ungu fólki í verknámi er óhætt að þvælast um með gamalmennum en ekki ungu fólki í bóknámi. Það skal vera girt af þannig að gamalmennin þvælist ekki fyrir því, ef þetta er rétt. — Og hver er þá hugmyndin á bak við það? Ég hreinlega skil það ekki og það væri ágætt að fá að heyra það.

Hitt varðar sjálfræði sjálfráða fólks; fólk sem er orðið yfir 18 ára er sjálfráða á Íslandi. Verða þessi úrræði um námsframvindu, án þess að fara í framhaldsskóla — það virðist vera einhver leið fyrir þá sem eru yfir 25 ára að tryggja námsframvindu sína til að fá réttindi til að ganga í háskóla. En á það við ef þú ert orðinn 25 ára? Hvers vegna er þá 25 ára talan? Á þetta líka við þegar þú ert orðinn sjálfráða, 18 ára gamall, þá er litið á þig sem sjálfráða einstakling sem átt að geta ráðið námsframvindunni sjálfur, eða hvað?