144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

takmarkað aðgengi að framhaldsskólum.

[15:59]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Það er nú einu sinni þannig að í fjárlögum hefur menntamálaráðherra ákveðið fjármagn til framhaldsskólans. Og hvaða skyldur hefur menntamálaráðherra? Hann hefur þær skyldur að nýta það fjármagn sem best.

Nú er verið að auka fjármagn í skóla, þ.e. fjármagn á hvern nemanda er aukið. Þetta hefur þann tilgang að styrkja framhaldsskólann sem ungmennaskóla, styrkja bóknámið, það er tilgangurinn. Það er ekki verið að skerða aðgengi 25 ára og eldri, það eru ýmsir möguleikar sem hafa verið raktir hér. En við höfum horft upp á gífurlegt brottfall í ungmennaskólunum, menntaskólunum, bóknáminu. Fjármagn á hvern nemanda lækkaði verulega á síðasta tímabili og það er verið að auka það.

Halda menn virkilega að hægt sé að fara sömu leiðina og láta sem ekkert sé með þetta fjármagn og minnka á hvern nemanda? Það er auðvitað ekki hægt. Það eru ýmsir möguleikar. Við höfum tilhneigingu til þess að bera okkur alltaf saman við Norðurlöndin, að vísu gera sumir það aðeins þegar hentar, og þá er þetta leiðin. Þetta er leiðin til að styrkja skólann og hún er nauðsynleg og það verður einfaldlega ekki hjá henni komist. Ég held að við ættum öll að einbeita okkur að því að styrkja skólann enn betur í framtíðinni í stað þess að hér sé einhvers konar lausung þar sem ekki er tekið á brottnámi, enginn gerir neitt og þetta er látið lulla áfram. Það kemur ekki út úr því góður skóli og það koma ekki út úr því góðir nemendur.