144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

takmarkað aðgengi að framhaldsskólum.

[16:12]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda enn á ný fyrir umræðuna, og einnig öðrum hv. þingmönnum.

Það eru ýmis atriði sem ég vil tæpa hér á en reyni að fara hratt í gegn. En fyrst þetta. Það er rangt sem haldið er hér fram og er sagt í síbylju að verið sé að skera niður heildarframlög til framhaldsskólastigsins. Hið öfuga er rétt, þ.e. verið er að auka í krónum talið framlögin til framhaldsskólanna.

Síðan er líka verið að horfa til þess að hækka framlagið á hvern nemanda, það verði gert, og ég legg það til. Það er ekki svo að deilt sé með lægri tölu eins og hér hefur verið haldið fram af hv. þingmönnum, í það minnsta tveimur, þeir hafa þá misskilið málið, því að mætti nú halda að auðvelt væri að átta sig á þessu af því að þetta stendur skrifað í fjárlagafrumvarpinu skýrum stöfum.

Síðan er hitt að hér hefur verið líka sagt, virðulegur forseti, að gengið hafi vel á framhaldsskólastiginu. Ég ætla bara að leyfa mér að segja að það sé ekki svo. Það er ekki í lagi hjá okkur hvernig við stöndum okkur í því að láta krakkana klára nám á framhaldsskólastigi. Skoðið bara samanburð við önnur lönd þá sjáið þið það. Þetta er ekkert í lagi. Það sem ég er að reyna að gera er að hækka framlagið til nemenda þannig að við höfum meira úr að spila fyrir hvern nemanda til þess að koma krökkunum í gegn.

Númer tvö. Hvers vegna þessi 25 ára regla? Hún er auðvitað fengin þannig, virðulegi forseti, að ég er með reglugerð sem var samin árið 2012 þar sem er farið í gegnum það lið fyrir lið í hvaða röð á að taka inn nemendur. Þar er kveðið á um í g-lið að þegar búið er að taka inn alla þá sem koma úr grunnskólunum og svo framvegis, og farið er í forgangsröð þá kemur hópurinn 25 ára og eldri. Þannig er þetta nú fengið.

Ég ítreka, það er áfram engin breyting hvað varðar iðn- og verknámið. Það er meðal annars vegna þess að meðalaldur þeirra sem eru í því námi er 25 ár, það er meðalaldur þeirra sem eru í því námi og aldrei hefur komið til greina að breyta því.

Ég vil síðan ítreka þetta. Þegar talað er um stöðu framhaldsskólans (Forseti hringir.) þá á að rifja það upp að framlag á nemanda árið 2011 (Forseti hringir.) fór niður í 890 þús. kr. (Forseti hringir.) á verðlagi ársins í ár, (Forseti hringir.) en grunnskólanemandi kostar 1,5 milljónir. (Forseti hringir.) Það kalla ég, (Forseti hringir.) aðför að framhaldsskólakerfinu.