144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:20]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Á síðasta þingi samþykktum við samhljóða í þingsalnum að lögfesta rammaáætlun þannig að við gáfum henni lögformlegt gildi. Andi þeirra laga var sá að þá var verið að breikka umfang hennar að því leyti að við gáfum verndarhlutanum jafnt vægi og nýtingarhlutanum. Þar með var málaflokkurinn færður í framhaldinu yfir til umhverfis- og samgöngunefndar og til hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra.

Núna tekur hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra ákvörðun um að fara með þessa rammaáætlun eins og gömlu nýtingaráætlanirnar í gamla daga fyrir þann tíma þegar við náðum sátt um að breikka svið rammaáætlunar og gefa verndarhlutanum jafnt gildi og nýtingarhlutanum. Þetta hryggir mig gríðarlega og fer algjörlega gegn þeim sjónarmiðum sem hafa fylgt rammaáætlunum og öllu því ferli á undanförnum árum. Hér er um gamaldags vinnubrögð að ræða. Það hryggir mig (Forseti hringir.) að menn skuli vera að hverfa aftur til fortíðar í þessum efnum. Mönnum í orkugeiranum er enginn greiði gerður með því (Forseti hringir.) að fara aftur með þetta í gamla farið sem þessi ríkisstjórn ber algjöra ábyrgð á núna.