144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:21]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Því er haldið hér fram að það sé verið að færa þennan málaflokk til atvinnuveganefndar og frá umhverfisnefnd. Ég bendi bara á að um það urðu miklar deilur þegar þessu var breytt á síðasta kjörtímabili. Þessi málaflokkur hefur alltaf verið hjá atvinnuveganefndum þingsins en það var síðasti meiri hluti sem ákvað að breyta því og það þarf ekki að koma neinum á óvart að við stígum þetta skref núna.

Ég spurði að því í ræðu í þinginu í gær hvort sjávarútvegsmálin, þegar við fjölluðum um vernd og nýtingu fiskstofna, ættu þá ekki heima í umhverfisnefnd og það kvað já við hjá einhverjum, eða skógrækt og málefni landbúnaðar. Af hverju fór áburðarmálið til atvinnuveganefndar? Af hverju fara landgræðslumál til atvinnuveganefndar? Og það kvað já við hjá einhverjum í salnum.

Á síðasta kjörtímabili kvartaði ég yfir því á tímabili að atvinnuveganefnd væri atvinnulaus í þessu þingi og það sýndi áherslur þess meiri hluta sem þá sat á atvinnumálin. Áherslur meiri hlutana núna (Forseti hringir.) eru alveg skýrar í atvinnumálum. Þetta mál á auðvitað heima (Forseti hringir.) þar ásamt öðrum þeim málum sem að þeim snúa. (Gripið fram í.)