144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:30]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Út af þessum ummælum hv. þingmanns er rétt að taka fram að þegar ágreiningur rís um það hvert eigi að vísa málum hefur þingið eitt úrræði og það að skera úr því með atkvæðagreiðslu. Þessi mál voru tekin fyrir á þingfundi 10. apríl 2014 og þá lýsti forseti eftirfarandi:

„Það er mat forseta að tillaga hæstv. ráðherra sé fullkomlega samræmanleg því ákvæði þingskapa sem kveður á um verkefni atvinnuveganefndar, samkvæmt 13. gr. þingskapalaga þar sem sagt er að nefndin skuli fjalla um sjávarútvegsmál, landbúnaðarmál, iðnaðar- og orkumál, nýsköpun og tækniþróun, atvinnumál almennt og einnig nýtingu auðlinda á grundvelli rannsókna og ráðgjafar. Þegar þetta ákvæði var sett inn lá fyrir talsvert ítarlegt nefndarálit frá þingskapanefnd á sínum tíma þar sem nokkuð er vikið að þessu máli og þar segir svo:

„Það var að lokum niðurstaða nefndarinnar að tiltaka auðlindamál (nýtingu auðlinda á grundvelli rannsókna og ráðgjafar) sérstaklega sem verkefni atvinnuveganefndar en auðlindamál (rannsóknir, ráðgjöf, verndun og sjálfbærni á sviði auðlindamála almennt) sem verkefni umhverfis- og samgöngunefndar.“

Síðan segir enn fremur:

„Í tengslum við það að skil á milli verkefna nefnda séu oft ekki alveg skýr tekur nefndin sérstaklega fram að það er að endingu þingið sjálft sem ákveður til hvaða nefndar máli er vísað.“

Þarna telur forseti að sé fullkomin stoð fyrir tillögu hæstv. ráðherra. Hins vegar kemur fram að óskýr greinarskil geti verið á milli verkefna umhverfisnefndar og verkefna atvinnuveganefnda og að því víkur einmitt nefndarálitið sem hér var vísað til og í þeim tilvikum hlýtur það að vera þingið sem kveður upp um til hvaða nefndar mál fari.“

Þannig að ekkert fari á milli mála er sá forseti sem hér stendur sammála þeim forseta sem stóð í forsetastóli og kvað upp úr um þetta 10. apríl enda erum við einn og sami maðurinn. [Hlátur í þingsal.]