144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

framhaldsskólar.

214. mál
[16:45]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég geri ekki athugasemd við að verið sé að bæta inn skólameisturum og öðrum faglegum stjórnendum og náms- og starfsráðgjöfum inn í heimild til þess að fá orlof. Það sem ég hafði áhyggjur af var hvort væri samkomulag um það í raunveruleikanum. Ef þetta kemur inn með dálitlum þunga hlýtur það að minnka aðgengi kennara að sama orlofssjóði.

Það sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra að í tengslum við þetta mál er að við búum það vel að landsframleiðsla á Íslandi er að aukast en mér sýnist að hlutfallið af landsframleiðslunni til menntamála hafi ekki aukist, þ.e. að kúrfan sé að hækka hvað varðar tekjuhlutann í samfélaginu, veltuhlutann í samfélaginu, en á sama tíma sé verið að minnka hann til framhaldsskólans. Nú hef ég ekki endanlegar tölur, það á eftir að útfæra fjárlögin, en það er greinilega margt sem þarf að leiðrétta þar.

Mig langar að heyra sjónarmið ráðherrans hvað þetta varðar því að þetta tengist líka því hvort við getum uppfyllt þá hugmynd sem var með lögum um skólann, framhaldsskóla þar með, um að námsgögn væru ókeypis, þ.e. að ekki væru sérstök gjöld lögð á þau. Því ákvæði var frestað, ákveðið var að láta það ekki taka gildi á meðan við fórum í gegnum holskefluna eftir hrun. En er ekki komin ástæða til þess að skoða það aftur?

Af hverju setur hæstv. ráðherra ekki á fót þróunar- og tilraunasjóð varðandi rafrænu gögnin þar sem þeir skólar sem nota í auknum mæli rafræn gögn fái til þess sérstakan styrk og verði þannig hvatning til þess að menn fari að nota rafræn gögn og spari þar með nemendum kostnað? Það er svo seinni tíma ákvörðun með hvaða hætti hægt er að setja gjaldtökuna upp.

Mér sýnist algjörlega ljóst á þessu frumvarpi og líka eftir að hafa séð þá hugmynd sem fram kom í fyrra að þarna sé bara verið að fara millileið í áttina að því að gjald á rafræn gögn verði lagt á með almennum skólagjöldum, þ.e. að lagður verði á skattur til þess að (Forseti hringir.) framhaldsskólanemendur verði látnir þannig að borga fyrir námsgögn.