144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

framhaldsskólar.

214. mál
[16:50]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Það er svolítið merkilegt í sjálfu sér að vera hér með frumvarp til laga um breytingu á lögum um framhaldsskóla frá 2008 — undirheitið er: rafræn námsgögn og fleira — á sama tíma og gríðarlega stórir hlutir eru að gerast annars staðar sem hafa ekkert komið til umræðu í þinginu nema í sérstakri umræðu í dag. Það hefur komið fram hvítbók þar sem áhersla ráðuneytisins og hæstv. ráðherra í málaflokknum er lögð fram. Hún hefur verið kynnt í hv. allsherjar- og menntamálanefnd en ekki hefur verið tekið efnislega á þeim þáttum. Ég hef sjálfur lýst yfir jákvæðum viðhorfum til þeirrar bókar enda er tilgangur hennar, eitt af stóru atriðunum, að skapa umræðu og auka samráð um stöðu skólanna og ekki hvað síst framhaldsskólanna.

Þetta frumvarp svarar ekki neinum af þeim hlutum sem þar koma fram. Hæstv. ráðherra virðist líta þannig á að núgildandi lög veiti nægjanlegar heimildir til að gefa jafnvel út valdboð um að stytta eigi nám. Það heitir að vísu í hvítbókinni ekki að stytta nám til stúdentsprófs, eins og það hefur verið kallað á undanförnum árum, heldur að auka hlutfall þeirra — þetta er ekki orðrétt hér mér — sem ljúka því námi sem þeir hafa áætlað á tilsettum tíma. Það er aðeins verið að fara í kringum hlutina.

Misvísandi upplýsingar eru um það hvort á sama tíma — og ég ætla að vona að hæstv. ráðherra geti hjálpað mér örlítið hvað varðar stöðuna á því máli — er verið að gera kröfur á skólana um að setja upp námsáætlanir eða námskrár miðað við þriggja ára nám og að það taki strax gildi á næsta skólaári. Nú eru skólaárin þannig í fjölbrautaskólum landsins að nemendur eru útskrifaðir um áramót og nýir nemendur koma oft inn um áramót, en mér finnst skipta mjög miklu máli að þetta sé líka rætt í því samhengi.

Ég fagna því, sem kom fram hjá hæstv. ráðherra, að tekist hafi að gera samninga við framhaldsskólakennara og ná sátt um það starf sem þar er unnið. Að vísu er þeim samningi ekki lokið. Vinna á áætlanir sem á að skila inn í byrjun næsta árs. Ég ætla að vona að þar náist samkomulag. Ég hef sjálfur kvartað yfir því í mörg ár, og fylgdi því ítrekað eftir í umræðum í þessum sal, að það er algjörlega óviðunandi hvernig við metum störf í uppeldisgeiranum og heilbrigðisgeiranum samanborið við viðskiptageirann í þessu landi, þ.e. að laun eru miklu lægri í fyrrnefndu störfunum.

Inni í þessum kjarasamningum eru ýmis ákvæði sem taka á tillit til og ég geri ekki ágreining um að þau séu tekin hér inn. Til dæmis er ágæt grein gerð fyrir starfstíma framhaldsskóla. Þó að nefndin fái væntanlega umsagnir treysti ég á að það sé í samræmi við kjarasamningana að lengja starfsár skólanna upp í 180 daga í áföngum. Mér finnst það í sjálfu sér hið besta mál.

Það eru samt ákveðnir hlutir sem maður getur ekki komið sér hjá að ræða þegar við erum að ræða um stöðu menntunar í landinu og hvernig við horfum til framtíðar. Þegar við vorum að ræða þetta í sérstakri umræðu áðan verð ég að viðurkenna að ég hafði miklar áhyggjur af því — miðað við þau markmið sem við höfum sett okkur varðandi menntamál, að gæta eigi jafnræðis um aðgengi að námi óháð efnahag og búsetu — að kannski hefði þurft að bæta inn í lögin „óháð aldri“. Nú er greinilegt að færa á til ákveðinn hóp innan kerfisins yfir í aðrar menntastofnanir en framhaldsskólana, yfir í einhverjar tilgreindar stofnanir. Ef menn hafa áhuga á því að taka framhaldsskólapróf og eru orðnir 25 ára þurfa þeir að sæta því að fara í fullorðinsfræðsluna, framhaldsdeildirnar, kannski í frumgreinadeildir hjá Keili eða á Bifröst eða hvar sem það verður.

Á sama tíma kemur býsna mikil gjaldtaka. Fellur það undir skilgreininguna „óháð efnahag“? Hversu mikið þarf maður að borga og þarf maður jafnvel að fara langan veg til að sækja námið? Það gildir líka um dreifnámið og fjarnámið, ef menn ætla að taka það í gegnum tölvur og annað slíkt, hver gjaldtakan verður þar. Þessi tilhneiging að minnka samneysluna — hæla sér af því að lækka skatta, tala um að fjölskylda lækki um 0,5% í tekjuskatti í milliþrepi og efri þrepum eins og var á síðasta ári, spara þar með fjölskyldu 2.000 til 3.000 kr. á ári í skatta — og færa svo skattinn yfir í skólagjöld á sömu fjölskyldu, t.d. skólagjöld eins og hækkun gjalda í háskólunum sem fóru ekki nema að hluta til til háskólans, eða gjaldtöku fyrir alla þá sem koma inn í endurmenntun, símenntun eða viðbótarmenntun.

Ég held að við þurfum að taka þessa umræðu heildstætt, hver á gjaldtakan að vera, hvernig er hún? Það gildir um námsgögn líka. Upphaflegu tillögunni hefur verið breytt. Í stað þess að um ákveðið gjald væri að ræða, eins og efnisgjald sem lagt yrði á alla nemendur í framhaldsskólum, er í þessu frumvarpi komin tillaga um að þetta verði tilraunaverkefni, bundið við ákveðna skóla jafnvel við einstakar bekkjardeildir, heyrðist mér á hæstv. ráðherra. Ef stafrænt efni er komið í notkun í einum skóla, hvernig ætlar hæstv. ráðherra að hindra að það verði nýtt af öðrum skólum á sama tíma miðað við það hvernig tölvuumhverfið er orðið og hversu auðvelt er að fara inn og sækja upplýsingar þegar það er komið í gang?

Væri ekki betra að reyna að semja við þá sem eru að semja námsefni, þær útgáfur sem sjá sér hag í því að búa til stafrænt efni, að þær fái greitt fyrir það eins og verið hefur í gegnum Námsgagnastofnun þannig að viðkomandi aðilar geti fengið fjármagn til að vinna gott kennsluefni? Það er alveg augljóst að okkur vantar meira af slíku efni. Það má líka semja um áskrift að efni frá útlöndum, því að í mörgum tilfellum getum við nýtt okkur erlent efni, þýtt það og staðfært; að þetta verði greitt af sameiginlegum sjóðum og síðan tryggt, þó að það verði í einhverjum tilraunum til að byrja með, að námsefnið verði gefið út þannig að allir geti haft aðgang að því. Þannig sláum við tvær flugur í einu höggi, gerum efnið ódýrara, fjölbreyttara og uppfyllum þá hugmynd sem var með lögunum á sínum tíma að námsgögn væru ókeypis, að skólinn væri ekki með sérstökum háum gjöldum.

Útilokað er að ræða þetta frumvarp, sem er til þess að gera lítið, öðruvísi en að skoða það í samhengi við þá umræðu sem átti sér stað áðan, sérstöku umræðuna um stöðu framhaldsskólanna. Það hefur komið mér ótrúlega mikið á óvart, miðað við þá stefnu sem fyrri ríkisstjórn reyndi að fylgja að tilstuðlan Samtaka atvinnulífsins, að ósk þeirra sem höfðu unnið í hagsældarhópnum, að ósk þeirra sem hafa verið að ræða um framþróun íslensks atvinnulífs — allir kölluðu á það að við aukum menntunarstig á Íslandi, aukum fjölbreytni í námi, tryggjum að menn geti lokið stuttum starfsnámsbrautum, klárað sitt nám og komið út á vinnumarkaðinn og að almennt verði betri menntun á þessum sviðum.

Þetta varð til þess að Samtök atvinnulífsins og aðilar vinnumarkaðarins, þ.e. verkalýðshreyfingin og opinberir starfsmenn, hlutuðust til um það að hluti af tryggingagjaldinu var settur í tilraunaverkefni sem er í gangi núna, bæði í Breiðholti og í Norðurlandskjördæmi vestra, þar sem skoðað yrði hvernig við getum eflt menntun þeirra sem nú þegar eru á vinnumarkaði. Auðvitað er fyrsta skrefið að hindra að menn komi út á vinnumarkaðinn með lítið sem ekkert nám. En á sama tíma er þarna reitt fram fjármagn, frá þessum aðilum sem eru tilbúnir að taka það af sinni launaveltu, í að bæta menntunarstigið líka, vegna þess að við erum líka að tapa tíma hvað það varðar.

Þetta tilraunaverkefni klárast nú um áramót. Ekki eru komnar neinar niðurstöður úr þessu þó að mörg verkefni séu þegar farin í gang þessu tengd. Ég tel mikilvægt að við klárum þetta og reynum að fylgja þessu eftir, þá líka með dreifnáminu eða framhaldsdeildunum sem hafa verið stofnaðar úti um land. Við höfum séð gríðarlegar breytingar með nýjum skólum eins og Framhaldsskólanum á Snæfellsnesi þar sem umhverfið gjörbreyttist við að fólk hafi aðgang að skóla í sínu nærumhverfi, líka allt menningarlegt og félagslegt umhverfi á þessu svæði þar sem unglingar eru lengur heima. Við megum ekki leika okkur að því að skapa einhverja hættu um þessar deildir.

Nú kom það fram hjá hæstv. ráðherra í sérstakri umræðu í dag að það væri rangt í fjárlagafrumvarpinu hvernig nemendaígildum fækkaði. Það er eins og mjög margt í fjárlagafrumvarpinu að um leið og maður fer að benda á ákveðna hluti þá er ekkert að marka þá. Sóknaráætlun er 15 milljónir, það er ekkert að marka það, það á eftir að færa hana upp í 100 milljónir. Það er erfitt að ræða málið öðruvísi en að hafa endanlegar tölur.

Sérstakur fundur var með skólastjórum framhaldsskóla hjá þingmönnum á Norðurlandi vestra og þaðan barst neyðarkall vegna þess að þeir þurfa að fækka nemendum, þeir þurfa að grípa til uppsagna til að bregðast við fjárlagafrumvarpinu. Fyrir mér er það öfugþróun og röng forgangsröðun.

Ég hef áður bent hæstv. ráðherra á það í fullri vinsemd að við verðum að gera greinarmun á því, þegar við fjöllum um menntamál, í hvað við erum að eyða myndarlega. Við erum með mikið fjármagn undir í leikskólum og að hluta til í grunnskólum en erum alls ekkert mjög vel stödd, miðað við tölur frá OECD, hvað varðar framhaldsskólana. Við erum ekki nema hálfdrættingar, með 50% lægri gjöld til nemanda, í háskólum, miðað við Norðurlöndin, og 38% ef við miðum við OECD-meðaltalið.

Hæstv. ráðherra á að vera í því liði sem berst fyrir því að þessi menntun verði bætt. Við heitum honum liðsinni í því. En það breytir líka forgangsröðuninni hjá hæstv. ríkisstjórn, hún getur ekki á sama tíma og hún kveinkar sér undan því að ráða ekki við að borga ákveðna hluti skorið niður tekjumöguleikana eða réttlátar tekjur í samfélaginu. Þetta er grundvallarumræða um það hvernig við tökum gjöld. Tökum við gjöldin inn í sameiginlegan sjóð og deilum úr honum til baka? Eða ætlum við að taka þetta í gegnum skólagjöld eða í gegnum námsbókagjöld, gjöld af rafrænum gögnum eða eitthvað slíkt, námsgögnum?

Ég óska eftir því að þessi umræða eigi sér stað, að við reynum að fara vel í gegnum hana og líka að tryggt verði að jafnræðisákvæðinu, hvað varðar efnahag og búsetu og eins aldur, verði fylgt eftir. Síðan getum við skoðað hversu mikið þarf til viðbótar. Við þurfum ekkert að kveinka okkur undan kjarasamningunum, við erum ekkert að kveinka okkur undan þeim. Það á ekki að bitna á náminu sjálfu, við eigum ekki að draga úr annars staðar til að borga kjarasamninginn. Við erum öll sammála um að auka skilvirkni í kerfinu og reyna að standa þannig að hlutunum að skólastarfið sé sem allra best. Það stendur ekkert á mér að vinna að því. Það verður þá að gerast í sátt og samlyndi, það verður að gerast á þann veg að við leggjumst á eitt um að ná þeim árangri og reynum að fá kennarasamtökin með okkur í þá vinnu og tryggja að eðlilegur framgangur verði.

Þegar við ræðum þessar stóru breytingar — og nú getur verið að einhverjar breytingar verði á grunnskólunum ef við ætlum að stytta námið, ljúka því fyrr — skiptir líka miklu máli að haft sé samráð við sveitarfélögin og málið sé unnið í góðri sátt við þau. Ríkið hefur í gegnum tíðina sett sér ákveðnar forsendur, að sveitarfélög eigi að leggja til skólahúsnæði. Þetta gekk meira að segja svo langt á sínum tíma, og menn geta haft skiptar skoðanir á því, að sveitarfélög fóru að byggja og síðan leigja ríkinu skólahúsnæði eins og í framhaldsskólum.

Í Borgarnesi er sveitarfélagið búið að kaupa húsnæðið, það var einkafyrirtæki sem átti skólann þar. Þar hafa menn verið að borga með skólahúsnæðinu í mörgum tilfellum. Það er ekki mjög gott ef sveitarfélög þurfa að taka á sig bagga við lögbundin verkefni vegna þess að þau eru neydd til þess, sérstaklega úti á landsbyggðinni, til að geta byggt við skóla eða byggt yfir kennslu þarf að tryggja að húsnæði sé til staðar. Sú krafa er ekki gerð hér á höfuðborgarsvæðinu að borgin leggi til peninga til skólahúsnæðis framhaldsskóla og óeðlilegt að það sé gert úti á landi.

Ég hlakka til að fjalla um þetta mál í nefndinni og hvet ráðherra til að hugleiða það með okkur að gjaldtökunni varðandi rafræn námsefni verði breytt yfir í það að þetta verði þróunarsjóður eða styrkur — það þýðir að hvatning verður til að semja mun meira af efni — en það verði ekki lagt á nemendurna í byrjun. Að öðru leyti sýnist mér óhætt að styðja við hlutina þó að ég eigi eftir að spyrja meira út í orlofssjóðinn, að ekki sé verið að skerða hjá einum til að koma öðrum að.