144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

framhaldsskólar.

214. mál
[17:06]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með hæstv. ráðherra að ekki sé skynsamlegt að innleiða rafræn námsgögn fyrir allt skólakerfið og vera með eitthvert miðstýrt val á því. Þess vegna var ég að velta vöngum yfir fyrirkomulaginu. Nú tekur einhver kennari eða bekkur það upp á ákveðnu svæði að vilja sækja tiltekið námsefni og nota það til kennslu. Er þá skynsamlegt að það þurfi að fara niður í ráðuneyti, fá umfjöllun um efnið og síðan fái skólinn heimild til að leggja gjald á nemendur, væntanlega í samráði við foreldra? Mín tillaga var að hægt yrði að sækja um fjármagn til að innleiða þetta námsefni frá sambærilegri stofnun og Námsgagnastofnun sem núna er verið að sameina með Námsmatsstofnun. Hún mundi veita slíka heimild og fjármagn til að gera slíka tilraun og halda utan um þetta. Það væri meira hvetjandi en að þurfa að fara í samninga við nemendur og foreldra eða bréfaskriftir við ráðuneytið um einstaka tilraun til tilgreinds tíma.

Á sama tíma og hæstv. ráðherra telur enga ástæðu til þess í frumvarpi sínu að skoða t.d. aðbúnað í einkaskólum með sérstökum hætti heldur varpar því bara út í kerfið, væntanlega til þess að létta á verkefnum í menntamálaráðuneytinu og þurfa ekki að vera að skoða hverja og eina umsókn sérstaklega, kallar hann yfir sig gríðarlega vinnu ef þetta á allt saman að fara í formlega afgreiðslu. Ef þetta er þá ekki bara feluleikur miðað við það sem stungið var upp á í fyrra, að það ætti að vera almenn gjaldtaka og menn fengju svo peninga til þess að veita þeim ákveðið svigrúm til þess að innleiða ný rafræn námsgögn.

Það er það sem ég er að velta upp og tel að sé (Forseti hringir.) ekki æskileg þróun.