144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

framhaldsskólar.

214. mál
[17:11]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek heils hugar undir það markmið hæstv. ráðherra að lækka kostnað hjá nemendum. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að ná utan um það með einhverjum hætti. Það er alveg rétt sem hefur komið fram, m.a. í skýrslu sem var unnin um stærðfræðikennslu, að það er svolítið tilviljanakennt hvað námsefni er notað, hvaða efni er á boðstólum og hversu mikið af því er nýtt efni þó að nemendur þurfi að kaupa efnið eða að minnsta kosti tryggja sér aðgang að því með einhverjum hætti.

Það sem ég er í raun að benda hæstv. ráðherra á er að hin leiðin, af því þetta er á tilraunastigi, væri sú að setja töluvert fjármagn í að þróa rafrænt námsefni eða að þýða erlent námsefni. Það væri meira hvetjandi. Það skiptir mjög miklu máli að slíkt efni sé á boðstólum, ekki endilega til þess að hafa það miðlægt í byrjun, það gæti leitt til þess að það yrði almennt notað, en það væri kannski miklu eðlilegra upp á kostnaðinn og fyrir nemendur. Það getur líka verið hvati fyrir viðkomandi skóla og nemendur að taka þátt í því að nýta sér slíkt námsefni með jákvæðum hætti, það yrði ódýrara fyrir þá tímabundið að vera þátttakendur í að prófa slíkt módel.

Það sem mér finnst vanta gjörsamlega í frumvarpið eru hugmyndir hæstv. ráðherra um heildarupphæðina. Og hvað er eðlileg gjaldtaka? Hér er nefnt að einstakir nemendur í framhaldsskóla greiði 60–90 þús. kr. fyrir skólabækur á einum vetri. Hver gæti gjaldtakan verið? Er það bara útreikningsatriði í hverju tilfelli? Ef fengin er heimild til að þýða t.d. erlendar síður og koma þeim í notkun á Íslandi er útilokað að það sé borgað af þeim sem fyrst notar þá útgáfu eða jafnvel að einn bekkur eða einn skóli borgi námsefni sem gæti verið innleitt í framhaldsskólann í heild.