144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

framhaldsskólar.

214. mál
[17:33]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Ég þarf augljóslega að senda spurningarnar inn skriflega og allt og gott blessað með það, það er eðlilegt að það liggi ekki alltaf öll svör á hreinu. Það kom ekki svar við lengingu skólans.

Mig langar að varpa öðru til hæstv. ráðherra, af því ég held að það hafi ekki komið fram í ræðu hans, og ég sendi það kannski líka í formi skriflegrar fyrirspurnar. Hér hefur hann talað mikið um að þetta sé þróunarverkefni, að verið sé að þróa þetta varðandi rafrænt námsefni. Það kemur ekki fram hvaða skólar og hversu margir séu þar undir, eða neitt slíkt. Þeirri spurningu er ósvarað hversu umfangsmikið verkefnið á að vera og hvort það verður bundið við landshluta, hvort það verður bara hér á höfuðborgarsvæðinu, eða hvernig eigi að velja skóla í þetta tiltekna þróunarverkefni.

Ráðherra má búast við skriflegum fyrirspurnum frá mér.