144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

framhaldsskólar.

214. mál
[17:51]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um framhaldsskóla. Í tengslum við þetta mál hafa spunnist ýmsar áhugaverðar umræður um þætti sem tengjast menntun, menningarlífi og skólastarfi. Það var athyglisvert sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon benti á hvernig þrengingar í bókaútgáfu, fyrirhugaðar vaxandi þrengingar í bókaútgáfu, kunni að hafa áhrif á útgáfu bóka sem tengjast skólastarfi. Hverjar eru þær þrengingar og hvers vegna er fyrirsjáanlegt að þær verði meiri? Jú, skattkerfisbreytingar, auknar álögur ríkisstjórnarinnar á bókaútgáfu í landinu munu leiða til þrenginga á því sviði, það er augljóst. Og hvað gerir blankur bókaútgefandi? Hann prentar að sjálfsögðu og gefur út bækur sem seljast afbragðsvel og síður þær sem eru hugsanlega kostnaðarsamari í framleiðslu og seljast síður en það er ýmislegt sem lýtur að menntun. Þetta er samhengi sem við þurfum að horfa til.

Það er líka rétt sem bent var á að hér er sitthvað að gerast á sviði menntamála sem kallar á mikla umræðu. Þetta frumvarp var hluti af stærra frumvarpi sem kom frá ríkisstjórninni á síðasta þingi og náði ekki fram að ganga að þessu leyti. Aðrir hlutar frumvarpsins voru samþykktir en þau ákvæði sem við erum núna að glíma við hlutu ekki náð þingsins vegna þess að menn vildu betri og lengri tíma. Þarna var verið að fást við ýmislegt sem laut að framkvæmd og einnig prinsippmálum sem kallaði á umræðu.

Hæstv. ráðherra hefur verið að kynna hugmyndir sínar um grundvallarbreytingar í skólastarfinu og styttingu framhaldsskólastigsins. Í gær heyrðum við að fyrirhugað væri að leggja niður öldungadeild við framhaldsskóla, Menntaskólann í Hamrahlíð. Það er svolítið stórt skref sem þar er stigið.

Nú þarf menntakerfið að laga sig að breyttum tímum og að sjálfsögðu er ekki saman að jafna framboði á menntun árið 1972 þegar öldungadeildin við Hamrahlíð var sett á laggirnar annars vegar og því sem er í boði núna. Það er ekki sambærilegt. Hins vegar var þar á ferðinni úrræði, leið sem margt fólk sem fór á mis við menntun í sínum uppvexti nýtti sér til góðs. Ég vil að minnsta kosti fá að sjá hver reynslan hefur verið og þróunin á undanförnum árum áður en þessu er kyngt endanlega.

Ég tel að öldungadeildin hafi verið eitt merkilegasta framfaraspor sem stigið var á síðustu öld í menntamálum. Hvers vegna var það skref stigið? Jú, í kringum 1970 var mikill pólitískur órói í landinu. Við munum eftir stúdentabyltingunum, við munum eftir öllum litlu róttæku hópunum sem settir voru á laggirnar. Stafrófið rúmaði varla alla marxísku byltingarhópana sem til urðu og úr þessu varð til mikil flóra pólitískrar róttækrar umræðu. Þegar spurt er hverju sú umræða skilaði þá svara ég: Hún skilaði t.d. öldungadeildinni við Hamrahlíð. Hún opnaði gamalt staðnað kerfi í menntamálum. Og ég segi að áður en gluggunum og dyrunum er lokað skulum við hugleiða mjög vel hvaða afleiðingar það kunni að hafa í för með sér.

Stytting menntaskólans er nokkuð sem ég held að við eigum ekki að ákveða nema að mjög vel íhuguðu máli. Þá hljótum við að sjálfsögðu að hlusta á raddir innan úr skólakerfinu. Okkur eru þegar farnar að berast yfirlýsingar og ályktanir frá skólamönnum, frá samtökum skólamanna og hagsmunasamtökum og áhugasamtökum á þeim vettvangi. Ég hef löngum haldið því fram sjálfur að það sé mikill kostur að koma seint út úr skólakerfinu upp á háskólastigið. Ég tel það ekki kost að koma þangað mjög ungur. Ég man þegar ég fór sjálfur í háskóla erlendis héðan úr menntaskólanum hvernig íslensku stúdentarnir stóðu miklu betur að vígi en erlendir samstúdentar þeirra. Það var ekki vegna þess að þeir væru endilega betur að sér heldur vegna þess að þeir voru eldri, það var þroskaðra fólk. Það er nokkuð sem við eigum að hugleiða líka.

Það er liðin tíð að litið sé á skólamenntun á þann veg sem gert var fyrr á tíð; að neminn kæmi inn eins og tómur poki sem síðan væri fylltur af fróðleik annarra. Þetta er liðin tíð sem betur fer. Það er litið á menntun sem dýnamískt ferli sem á að standa frá því að einstaklingur kemur í skóla og síðan á hann að vera í menntun og símenntun alla tíð, allt lífið. Það kann vel að vera að mig skorti hreinlega þekkingu til að meta hvort réttlætanlegt sé að loka öldungadeildinni við Hamrahlíð, en mér finnst þetta vera stór ákvörðun. Ég vil gjarnan fá að heyra rökin sem kunna að vera að baki.

Saga þessa frumvarps er rakin í greinargerð með því. Eins og ég nefndi var hluti frumvarps sem áður kom fram ekki samþykktur í þinginu, óskað var eftir því að beðið yrði með hann og sá hluti er núna til umræðu.

Í umsögn um frumvarpið frá fjármála- og efnahagsráðuneyti er dregið saman um hvað frumvarpið snýst. Talið er upp að það varði rétt náms- og starfsráðgjafa til að sækja launuð námsorlof, það varði viðurkenningu á húsnæði einkarekinna framhaldsskóla, gjaldtökuheimild vegna rafrænna námsgagna, afhendingu byggingarlóða undir framhaldsskólabyggingar án kvaða eða gjalda og setningu reglugerðar um starfstíma framhaldsskóla. Mig langar til að víkja að tveimur þessara þátta, annars vegar rétti starfs- og námsráðgjafa til að sækja launuð námsorlof og hins vegar gjaldtökuheimild vegna rafrænna námsgagna.

Varðandi fyrri þáttinn kemur fram í greinargerð með frumvarpinu og þá sérstaklega í umsögn fjármála- og efnahagsráðuneytisins, skrifstofu opinberra fjármála, að hér sé verið að bregðast við kröfum frá Kennarasambandi Íslands sem hafi óskað eftir því að náms- og starfsráðgjöfum í framhaldsskólum yrði veittur sami réttur og kennarar hafa notið til þessa. Þetta er gott. Mér finnst prýðilegt að með þessu frumvarpi skuli orðið við óskum Kennarasambands Íslands. En bíðum við. Hvað segir fjármálaskrifstofan í sinni umsögn? Hún segir, með leyfi forseta:

„Breytingin felur ekki í sér aukinn kostnað fyrir ríkissjóð þar sem fjöldi orlofa hefur verið ákveðinn í kjarasamningum.“

Hvað þýðir þetta? Þetta þýðir að þótt opnað sé fyrir það í lögum að fleiri en áður skuli eiga aðgang að þessu námi þá verði nú aldeilis ekki fjölgað í hópnum sem nýtur þessa. Hópurinn sem kemur úr kennarastétt verður sem sagt takmarkaður. Út á það virðist mér þetta ganga. Það er með öðrum orðum verið að breyta forminu, ég tek undir að það er gott og fagna því, en ég vek athygli á því að þá er verið að fækka möguleikum kennara til að nýta sér þann rétt sem þeir hafa notið til þessa og ég tel vera gríðarlega mikilvægan, rétturinn til launaðs námsorlofs. Ég tel hann vera gríðarlegan mikilvægan á öllum skólastigum. Þar komum við aftur að því sem ég nefndi áðan um breytta afstöðu okkar til menntunar, að við lítum á menntun sem viðvarandi ferli allt lífið en ekki gamla pokann sem er fylltur af fróðleik annarra og síðan stimplaður með prófgráðum og öllu lokið, allt búið. Ég vek athygli á þessum þætti, hæstv. forseti.

Hinn þátturinn sem ég vildi nefna varðar heimildir til innheimtugjalda. Um það segir, með leyfi forseta:

„Einnig er lagt til að í skólum verði, með sérstöku leyfi ráðherra, heimilað að innheimta gjald fyrir rafrænt efni sem þeir ákveða að nýta í kennslu. Ráðherra geti veitt skólum slíka heimild í tilraunaskyni í takmarkaðan tíma, bundið við tilteknar námsgreinar.“

Nú spyr ég hæstv. ráðherra: Í hverju er þessi tilraun fólgin? Hæstv. ráðherra sagði áðan að mikilvægt væri að draga úr kostnaði við námsgagnagerð, þar á meðal kostnaði við rafræn námsgögn. Ég hef ekki trú á því að hugmyndin sé að draga úr kostnaði heldur eigi að deila honum með öðrum hætti. Í stað þess að hið opinbera og skólarnir sjái nemendum fyrir námsefni verði seilst í ríkari mæli en áður ofan í vasa nemenda til að þeir taki á sig þessar kostnaðarbyrðar. Þess vegna spyr ég: Í hverju er þessi tilraun fólgin? Er það spurning um hversu langt er hægt að seilast ofan í vasa nemenda, hve mikið fjármagn er þar að finna, hve aflögufærir nemendur kunni að verða o.s.frv.? Í hverju er þessi tilraun fólgin?

Eitt að lokum, hæstv. forseti, um þá þróun sem varð í kringum 1970, þá miklu lýðræðisgerjun sem átti sér stað og varð til þess að opna skólakerfið. Eitt af því sem kom út úr því og varð almennari regla var samráð, að hlusta á kennarasamtökin, að hlusta á starfsmenn skólanna, þá sem stjórnuðu skólunum. Aukið samráð. Ekki svo að skilja að menn væru endilega mjög fýsandi að fara í slíkt samráð. Þetta var tíðarandinn og menn voru knúnir til þess. Í ljósi þess veltir maður því fyrir sér, þegar við fáum núna holskeflu af ályktunum frá kennarasamtökum, frá skólastjórnendum um breytingar á kennslustarfinu og væntanlega þeim hugmyndum sem ráðherra er að kynna þessa dagana um styttingu framhaldsskólans, hvort ráðherrann sjái fyrir sér að einhver vatnaskil séu að verða í þeim efnum, að við megum búast við því að síður verði hlustað en gert hefur verið hingað til.