144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

framhaldsskólar.

214. mál
[18:11]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það hefur verið mín ógæfa í lífinu að vera ekki alltaf sammála BHM. Það á við í þessu máli eins og stundum áður. Ég hef einfaldlega aðra sýn á þetta en BHM. En þetta er náttúrlega álitamál sem er margar hliðar á og er ekkert svart/hvítt mál, alls ekki. En ég vil líka hlusta á það sem skólastjórnendur segja í þessu efni og mér heyrist þeir margir hverjir tala meira í takt við það sem ég er að nefna.

Við erum náttúrlega öll að læra, hvort sem við erum í menntaskóla eða annars staðar. Ég er einfaldlega að segja að þegar við förum inn í þessa miklu sérhæfingu í námi okkar held ég að það sé kostur að vera búinn að öðlast meira alhliða menntun áður. Það var vandinn sem bresku stúdentarnir, sérstaklega í Englandi, síður kannski í Skotlandi, áttu við að stríða að þeir höfðu fyrr í námi sínu í framhaldsskóla þurft að taka ákvarðanir um strangari sérhæfingu en við höfðum gert, að minnsta kosti á þessum tíma. Ég held að sú alhliða menntun sem okkur er tryggð og hefur verið tryggð í íslenska skólakerfinu hafi verið okkur mjög til góðs.