144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

viðvera heilbrigðisráðherra í umræðu um sölu áfengis.

[18:16]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég held að enginn geti deilt um það að það frumvarp sem hér er til umræðu kæmi til með að skipta sköpum að mörgu leyti ef það yrði að lögum. Þetta er mjög stórt mál sem er hér til umræðu.

Ég spyr: Er Sjálfstæðisflokknum — mér skilst að margir þingmenn hans séu mjög fylgjandi þessu frumvarpi — svo umhugað um og svo mikið í mun að þetta mál nái fram að ganga, að þetta sé slíkt forgangsmál, að ekki sé hægt að verða við óskum okkar um að hæstv. heilbrigðisráðherra komi hingað og skiptist á skoðunum um þetta?

Það er að vakna mikil umræða í þjóðfélaginu um þetta mál. Læknar eru að kveða sér hljóðs, lýðheilsufólk, foreldrasamtök. Fólk vill fá að heyra sjónarmið hæstv. heilbrigðisráðherra áður en málið fer til nefndar. Ég ítreka því (Forseti hringir.) óskir mínar og spyr hvort það sé kostur að fresta þessari umræðu.