144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[18:18]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum um verslun með áfengi og tóbak. Ég tek undir með fyrri ræðumönnum, hv. þingmönnum, að mér þætti eðlilegt að hæstv. heilbrigðisráðherra væri hér og hlýddi á þessa umræðu. Þetta snertir hans málaflokk gífurlega mikið og er rétt að hans sjónarmið komi fram í umræðunni og að þingmenn geti átt orðastað við hann um þessi mál og lýðsheilsustefnu stjórnvalda eins og hún liggur fyrir.

Mér finnst alveg með ólíkindum að þetta sé eitt af forgangsmálum Framsóknarflokksins. (Gripið fram í: Sjálfstæðisflokksins. ) — Ég biðst forláts. Kannski veit þetta á gott og Framsóknarflokkurinn dragi Sjálfstæðisflokkinn aftur heim í skotgrafirnar með þetta umdeilda mál. Ég held að það sé mikil andstaða þvert á flokka við að fá áfengi, sem er engin venjuleg neysluvara, inn í allar verslanir, að opna á það. Sjálfstæðisflokkurinn hefur vissulega verið sá stjórnmálaflokkur sem hefur barist hvað harðast fyrir því að ná þessu máli sínu fram. Ég veit ekki alveg hvað það á að fyrirstilla, hvort þetta sé eitthvert merki út í þjóðfélagið um að þar með nái hið mikla frelsi til allra þjóðfélagsþegna, þó að við vitum að í frelsi getur líka falist helsi og það á við í þessu máli.

Maður spyr sig: Frelsi fyrir hverja? Er verið að hugsa um unga fólkið okkar, aðgengi þess að þessari vöru? Eða er verið að hugsa um hinn venjulega Jón, að hann hafi ekki nægt aðgengi að áfengi í búðum? Ég held að fyrir hinn venjulega Jón eða Siggu úti í bæ sé aðgengi að áfengi innan ÁTVR alveg nægjanlegt vítt og breitt um landið og ekki skorti á það. En aðgengi ungs fólks að áfengi innan þeirra verslana sem ríkið rekur er ekki fyrir hendi. Ég tel mjög gott að Áfengisverslun ríkisins hafi tekið það föstum tökum að koma í veg fyrir aðgengi þeirra sem hafa ekki náð áfengiskaupaaldri. Það er til fyrirmyndar hvernig ÁTVR hefur unnið í þeim málum undanfarin missiri.

Það sem vekur mig og fleiri í þjóðfélaginu til umhugsunar og andstöðu í þessu máli eru lýðheilsumálin, eins og komið hefur verið inn á, og allt það forvarnastarf sem hefur verið unnið á undanförnum árum af hálfu heilbrigðisyfirvalda, foreldrasamtaka og frjálsra félagasamtaka í landinu og hefur skilað árangri. Erum við tilbúin til þess að taka þá áhættu í nafni þess að ekki sé nægjanlegt frelsi í landinu fyrir einstaklinga og fórna lýðheilsumálum á altari mammons?

Ég tel að það sé fyrst og fremst verið að hugsa um peningaöflin í landinu þegar grannt er skoðað, að veita þeim aðilum, stórversluninni, innflytjendum og öðrum sem að þessum málum koma varðandi innflutning og sölu, frelsi til að græða sem mest á þessari vöru, að það sé markmiðið með þessu máli þegar upp er staðið. Þá þarf að vega og meta hvort sé meira virði, gróði stórfyrirtækja, stórverslana og innflutningsaðila eða framtíð barnanna okkar, lýðheilsa í landinu.

Þetta mikla heilbrigðismál snýr í raun og veru að fólki á öllum aldri, ekki bara unga fólkinu. Þetta snýr líka að fólki á miðjum aldri, eldra fólki og fólki á öllum aldri. Ef áfengi væri komið í verslanir vitum við að ýtt yrði undir þá tilhneigingu að kaupa áfengi eins og hverja aðra dagvöru, að litið yrði á það sem venjulega dagvöru en ekki vímuefni sem umgangast á í hófi og eðlilegt er að búið sé um eins og ýmislegt annað sem við teljum ekki eiga heima í almennum verslunum.

Ef við horfum til þess sem hefur verið að gerast varðandi tóbak, umræðuna og þróunina í þeim málum, þá hefur viðhorfið gjörbreyst þó að vissulega hafi verið erfitt að berjast gegn tóbaksframleiðendum í heiminum í þeim efnum. Þó að sú vara sé seld í verslunum er hún falin í lokuðum skápum og þar með er ekki sama aðgengi eða áreiti. Aldur þeirra sem mega kaupa tóbak hefur líka verið hækkaður upp í 18 ár.

Allar kannanir sýna að það hefur dregið úr drykkju ungs fólks. Sem betur fer hefur náðst mjög mikill árangur og drykkja til dæmis ungs fólks í 10. bekk minnkað mjög mikið. Ég tel að ef áfengi kæmi inn í búðir, þangað sem ungt fólk á erindi og er að kaupa aðra vöru, mundi aðgengi þess að vörunni breytast því að ungt fólk á ekkert erindi í ÁTVR hvar sem er á landinu, a.m.k. ekki það unga fólk sem er ekki á áfengiskaupaaldri. Í þeim stórverslunum þar sem meiri hluti afgreiðslufólks er ungt fólk líka þá segir það sig sjálft að erfitt yrði að standa gegn því að hleypa ungu fólki í gegn með áfengi. Það er bara veruleikinn.

Hvernig verður til dæmis með auglýsingar? Núna má ekki auglýsa áfengi þó að margir aðilar hafi farið á svig við það bann með því að auglýsa áfengi sem er eingöngu rúm 2% eða það sem telst ekki áfengt. Ég get ekki ímyndað mér annað en að það flæði yfir í framhaldinu og hver stórverslun keppist við aðra um að auglýsa áfengi en þær verslanir munu fyrst og fremst græða á þessu. Ég tel að minni verslanir mundu eingöngu vera með örfáar tegundir af einhverjum ódýrum vínum eða bjór.

Því hefur verið flaggað hér að þetta sé stórt byggðamál. Mér finnst það vera svo öfugsnúin umræða sem mest má vera vegna þess að áfengi mun hækka í kjölfar þessa. Í dag er áfengi á sama verði hvar sem er á landinu. Flutningsgjöld mundu leggjast ofan á áfengi til verslana vítt og breitt um landið ef þetta frumvarp yrði að lögum. Fyrir þá sem telja sig vera hófdrykkjumenn og geta umgengist áfengi, sem ég held að séu enn þó nokkrir í landinu, held ég að úrval af áfengistegundum dragist saman, verðið muni hækka og aðgengi minnka.

Nú eru útibú ÁTVR mjög víða um landið og ég held að slæmt aðgengi að áfengi brenni ekki heitast á þjóðinni. Ég held að fólk á Flateyri, Raufarhöfn eða Kirkjubæjarklaustri sé ekki að hugsa um það. Það er að hugsa um einhver önnur mál sem snúa að möguleikum á því að geta yfir höfuð framfleytt sér og búið á þessum stöðum með reisn.

Af hverju erum við að taka áhættu á því að eyðileggja þann mikla árangur sem hefur verið í lýðheilsumálum á undanförnum árum í forvarnastarfi, sem hefur vissulega verið að skila sér, með það í huga að auka hið svokallaða frelsi en hleður fyrst og fremst undir innflytjendur og stórverslanir til að geta gætt meira á þessari viðkvæmu vöru?

Við þingmenn höfum fengið áskoranir vegna þessa frumvarps um að afnema einkaleyfi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á smásölu áfengis og gefa smásölu áfengis frjálsa upp að ákveðnu marki. Ég ætla að lesa hér upp hluta af þeim áskorunum, með leyfi forseta:

„Áfengisneysla er meðal sterkustu áhættuþátta lýðheilsu, samanber mat Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Kostnaður samfélagsins vegna neyslu áfengis birtist víða, m.a. í heilbrigðiskerfinu, löggæslu og dómskerfinu, tryggingakerfinu, atvinnulífinu, svo eitthvað sé nefnt, að ógleymdum áhrifum á einstaklinga, fjölskyldur og nærsamfélagið.“

Enn fremur segir, með leyfi forseta:

„Við vekjum athygli á að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að bætt lýðheilsa og forvarnastarf verði meðal forgangsverkefna ríkisstjórnarinnar. Í samræmi við það hefur verið sett á fót ráðherranefnd um lýðheilsumál undir hatti forsætisráðherra.“

Það væri gaman að kíkja undir þann hatt og sjá hvað er að gerast þar. Það væri einkar fróðlegt að fá að frétta af því …

(Forseti (SJS): Forseti biður ræðumann afsökunar en forseti vill eindregið mælast til þess að þingmenn í hliðarsal gæti þess að ekki berist ómur af samtölum þeirra inn í salinn.)

Ég þakka hæstv. forseta fyrir það. Þetta mál er þannig vaxið að menn eiga að hlusta á allar raddir. Mér finnst þessi áskorun til alþingismanna vera það grafalvarleg að ég trúi ekki öðru en að hv. flutningsmenn sjái að sér og dragi þetta mál til baka. Það er ekkert að því að vitkast þegar svona mál er annars vegar. Við eigum að taka mark á þeim fjölda sem hefur haft samband við okkur þingmenn og komið á framfæri skoðunum sínum um að þetta sé eitt af því sem við eigum alls ekki að gera. Við verðum að byggja á langtímastefnumörkun í forvörnum og lýðheilsu því að það skiptir gífurlegu máli fyrir unga fólkið okkar og samfélagið allt.

(Forseti (SJS): Forseti vill upplýsa vegna óska um að hæstv. heilbrigðisráðherra komi til umræðunnar að hæstv. ráðherra mun vera staddur erlendis og koma til landsins annað kvöld. Í ljósi þess að engar líkur eru nú á að þessi umræða tæmist í dag má taka tillit til þessara óska við skipulagningu framhaldsumræðu, hvort sem hún verður á morgun eða síðar.)