144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[18:42]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég tel að þeir sem hafa landsbyggðarfólk og hagsmuni þess í huga varðandi þetta frumvarp séu að fara í þveröfuga átt við það sem þeir ættu þá að gera. Verð á áfengi mun hækka. Við þekkjum það að vöruverð úti á landi er víðast hvar miklu hærra en hér á höfuðborgarsvæðinu vegna flutningsgjalda. Varðandi tegundir af áfengi á ég von á því að það mundi gjörbreytast. Þessar litlu verslanir úti á landi hafa ekkert efni á því að liggja með lagera af áfengistegundum. Og öll þjónusta við þá sem eru að höndla með áfengi, hvort sem það eru veitingahús eða aðrir, mun gjörbreytast til hins verra. Ég sé fyrir mér að í Bónus væri kannski eitthvert Bónus-kassavín á boðstólum og einhverjar ódýrar tegundir af bjór og ekkert víst hvort þessar litlu verslanir geti yfir höfuð legið með eitthvert áfengi nema það allra ódýrasta.

Ég tel að þetta muni fyrst og fremst hafa í för með sér uppgrip á höfuðborgarsvæðinu þar sem stóverslunarrisarnir munu gleypa við vinsælustu tegundunum og reyna að komast yfir umboð fyrir það áfengi. Það er ekki verið að hugsa um að það verði eitthvað auðveldara fyrir fullorðið fólk að nálgast þessa vöru úti á landi frá því sem nú er. Aðgengið er ágætt eins og það er í dag og verðið sama hvar sem er á landinu.