144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[18:48]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég skal afrugla þessa umræðu strax. Þetta var ekki meint þannig að ég teldi að vitsmunir þeirra hv. þingmanna sem fluttu málið væru skertir, en ég tel þetta samt ekki mjög vitrænt miðað við allt það sem hefur verið lagt fram af heilbrigðisyfirvöldum, Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni, landlækni. Allar ályktanir þessara aðila hníga að því að við séum að fara í vitlausa átt. Einhvern veginn er það alltaf vitið sem kemur upp í umræðunni, og já, þetta er vitlaus átt. Ég tel þetta vitlaust á þeim forsendum að verið sé að fara í vitlausa átt hvað varðar hagsmuni unga fólksins og lýðheilsusjónarmiðin í landinu. Ég tel að þegar upp er staðið, burt séð frá öllum byggðasjónarmiðum og fjölda tegunda í ÁTVR eða verslunum, sé þetta það stærsta í þessu öllu og það sem við eigum að horfa til, þ.e. forvarnir fyrir unga fólkið okkar, lýðheilsusjónarmiðin í landinu og hvað það kostar samfélagið ef við látum þessa viðkvæmu vöru, sem ekki er neysluvara, inn í allar verslanir. Þá verðum við að hugsa um eitthvað annað en frelsi fjármagnsins og frelsi stórverslana til þess að versla með vöruna.

Ég spyr hv. þingmann: Af hverju stungu hv. flutningsmenn ekki bara upp á því að þessi vara færi inn í apótek? Ég tel að apótekin sem versla með viðkvæm lyf og annað hafi sýnt fram á að þau geti gert það. Mér finnst það vera allt önnur umræða.