144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[18:53]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir upplýsingar hæstv. forseta varðandi fjarveru hæstv. heilbrigðisráðherra í þessari umræðu. Það var upplýst að hann er staddur í útlöndum og getur skiljanlega ekki verið hér viðstaddur af þeim sökum, en hann kemur til landsins á morgun og reynt verður að stuðla að því að ráðherrann geti verið viðstaddur umræðuna á síðari stigum.

Nú geri ég ráð fyrir því að aðstandendur þessa frumvarps vilji ljúka umræðunni sem fyrst og koma henni til nefndar, þannig að ekki er hægt að gefa sér að umræðan verði mjög löng áður en málið fer til nefndar. Ég tel því mjög mikilvægt í fyrsta lagi að umræðunni verði lokið nú og í öðru lagi að hún hefjist ekki að nýju fyrr en öruggt er að ráðherrann geti verið viðstaddur.