144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[19:01]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Þegar ráðist er í miklar og óendurkræfar breytingar á löggjöf er nauðsynlegt fyrir þá sem standa að ákvörðunum að gera sér glögga grein fyrir afleiðingum þeirrar lagabreytingar sem þeir leggja til. Menn þurfa að spyrja sig í upphafi hvort sú breyting að setja áfengi til sölu í matvöruverslunum hafi jákvæð áhrif, hvort hún hafi jákvæð áhrif á neytendur áfengis, hvort hún hafi jákvæð áhrif á þá sem eiga við áfengisvanda að stríða, hvort hún hafi jákvæð áhrif á vöruverð, hvort hún hafi jákvæð áhrif á vöruúrval, hvort hún hafi jákvæð áhrif á lýðheilsumarkmið og hvort hún hafi jákvæð áhrif á landsbyggðina, eins og haldið er fram í greinargerð með frumvarpi sem hér liggur fyrir.

Svar mitt við ofangreindum spurningum er nei, nei í öllum tilfellum. Það er næsta víst að ef sala í matvöruverslunum verður leyfð hefur það ekki jákvæð áhrif á neytendur áfengis. Það gerir þeim sem veikir eru fyrir erfiðara fyrir að standast freistingar. Fram kom í grein í læknatímaritinu Lancet frá árinu 2009, með leyfi hæstv. forseta, að ein áhrifaríkasta leiðin til þess að ná lýðheilsumarkmiðum í áfengissölu væri að hafa áfengissöluna á hendi ríkisins.

Fram kom í nefndaráliti um norræna lýðheilsustefnu í áfengis- og tóbaksmálum, að samkvæmt rannsókn frá árinu 2012 mundi salan aukast um 44% við svona breytingu. Gerður var útreikningur í Svíþjóð árið 2010, sem mig langar að vitna í, með leyfi forseta, á því að ef áfengiseinkasalan yrði gefin frjáls þar mundi það auka neyslu um 38%.

Það er nauðsynlegt fyrir okkur að hafa það í huga þegar við tökum ákvörðun eins og þá sem við stöndum frammi fyrir núna. Síðast þegar við tókum stóra ákvörðun um breytingu í áfengismálum á Íslandi var þegar við leyfðum bjór 1989. Og ég veit að nú stökkva nokkrir upp á eftir og segja: Viltu bakka aftur til 1988 þegar það voru 13 búðir á Íslandi og enginn bjór? Ekki endilega. En ég vil að við lærum af því hvað gerðist í kjölfar þess að við lögleiddum bjór hér 1989. Hvað gerðist?

Menn segja: Drykkjumunstrið breyttist til batnaðar, það er allt miklu betra núna. Á sama tíma, frá 1988 og til dagsins í dag, hefur neysla á hreinum vínanda á mann á Íslandi aukist um 2,5 lítra, úr 4,5 lítra upp í 7 lítra. Ég veit að 1. flutningsmaður þessa frumvarps er bindindismaður og ég ber mikla virðingu fyrir því, ég hef mikla aðdáun á því, það er til mikillar fyrirmyndar. En ég vil benda honum og öðrum á, og ég tala af reynslu, að menn sem drekka mikið af bjór verða nákvæmlega jafn drukknir og menn sem drekka annað áfengi. Það tekur aðeins lengri tíma og maður þarf að fara nokkrum sinnum á klósettið en nettó niðurstaðan er sú sama, menn verða fullir.

Hvað hefur gerst á þeim tíma síðan við lögleiddum bjórinn? Menn segja: Þetta er svo kúltíveruð drykkja. Samt eru menn barðir um helgar í miðbænum alveg eins og áður. Heimilisofbeldi er alveg eins og áður, jafnvel meira, og menn líta núorðið svo á að það sé bara sjálfsagt mál að drekka hér bjór jafnvel á hverjum einasta degi. Eitt er víst að biðstofan í SÁÁ er þéttskipuð fólki á miðjum aldri sem ekki höndlar aðgang að þessari tegund áfengis.

Ég vil ekki bakka aftur til 1988, hafa hér 13 verslanir, en ég spyr: Getum við ekki lært eitthvað af þessari reynslu? Ég verð að segja, með mikilli virðingu fyrir flutningsmönnum þessa frumvarps: Mér finnst greinargerðin með frumvarpinu ekki traustvekjandi. Hún er ekki sannfærandi. Mig langar að taka nokkur dæmi, með leyfi forseta.

Þarna er talað um það, sem rétt er, að í skýrslu alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækisins McKinsey & Co. hafi verið bent á þá miklu sóun sem er á Íslandi vegna þess að verslunarrými er hér allt of mikið. Ég spyr: Bíddu, á ríkið þá að hysja buxurnar upp um kaupmenn sem hafa offjárfest, með því að rétta þeim aðgang að einhverri nýrri vöru? Og hvað þegar áfengið dugar ekki lengur? Hvað eigum við að rétta þeim þá? Eigum við að gera þetta fyrir alla sem offjárfesta? Á ríkið að rétta þeim eitthvað til þess að leiðrétta kúrsinn á vitleysunni?

Hér er sagt að þó að vínbúðum ÁTVR hafi fjölgað séu þær ekki jafnmargar og kaupmannsverslanirnar. Það er alveg rétt. Hvað mundi gerast ef við mundum samþykkja þetta frumvarp í kvöld og það yrði að lögum á morgun? Þá mundi ekki vera ríkiseinkasala lengur, hér yrði fákeppnissala þar sem tveir aðilar með 80% markaðshlutdeild réðu öllu, vöruframboði, verði, því að hv. flutningsmenn þessa frumvarps skulu vita það að með dreifingu áfengis í matvöruverslunum mun verð á áfengi hækka. Af hverju segi ég það? Vegna þess að þegar heildsöluendi þessa geira var gefinn frjáls fyrir nokkrum árum síðan hækkaði verð á áfengi. Hvers vegna? Vegna meiri dreifingarkostnaðar. Treystum við kaupmönnum til þess að selja áfengi á sama verði og ÁTVR? Ég efa það.

Um daginn var nefnt dæmi um óáfengt hvítvín sem ÁTVR lagði 18% á. Það var til sölu í stórmarkaði í Reykjavík með 80% álagningu. Halda menn að kaupmenn ætli að fara að selja áfengi fyrir ekki neitt? Hafa kaupmenn staðið undir því trausti sem þeim var sýnt fyrir nokkrum áratugum síðan með frjálsri álagningu? Ég get ekki séð það. Það eru mýmörg dæmi þess, síðast núna í sumar.

Fyrir nokkru lækkaði Alþingi tóbaksgjald með lögum og þótti mörgum fullseint í rassinn gripið því að í kjölfarið fylgdi kjarasamningagerð í desember síðastliðnum. Hvað gerðist? Það munaði 5 eða 10 kr. á hvern sígarettupakka sem seldur var. En kaupmenn skiluðu ekki þessum 5 eða 10 kr., þessum lækkuðu sköttum hjá ríkinu, þeir héldu þeim eftir þangað til eftir því var kallað. Hvað er þá svona traustvekjandi við þetta kerfi?

Síðan er talað um að kaupmaðurinn á horninu muni blómstra við þessar kringumstæður. Ja, hann fær 20% eða jafnvel 10% þegar stórmarkaðarnir eru búnir að taka markaðshlutdeild sína. Einn frægasti kaupmaður á horninu sem ég þekki er í Melabúðinni þar sem er ævintýralegt vöruúrval. Nú veit ég ekki hvað skipulagsyfirvöld í Reykjavík mundu gera, en ég sé ekki annað en að kaupmaðurinn yrði að selja ölið úti á götu. Það er hvergi pláss og ég get ekki séð að skipulagsyfirvöld mundu leyfa stækkun þessarar verslunar þar sem hún er staðsett. Þetta mun því kyrkja kaupmanninn á horninu en ekki styrkja hann.

Síðan er það spaugilegasta af öllu, nema hvað að það er ekki fyndið, að þetta sé landsbyggðarvænt. Nú er ég búinn að búa úti á landsbyggðinni í 14 ár. Ég sé ekki nokkurn einasta kaupmann setja upp áfengisútsölu eða áfengishorn í búðinni hjá sér á Þórshöfn á Langanesi með 140 tegundum áfengis, eins og lágmarkið er hjá ÁTVR. Eða á Hólmavík eða í Ólafsfirði. Ekki til að tala um, glætan, eins og krakkarnir segja, afsakið, herra forseti. Þau rök sem menn setja hér fram eru því í besta falli ótrúverðug, í besta falli.

Svo segir hér, þetta er ein af nokkrum „brillíant“ setningum í greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Ekki er ólíklegt að aukið aðgengi að áfengi hafi aukin áfengiskaup í för með sér, a.m.k. til byrja með. Líklegt verður þó að telja að jafnvægi náist og neyslan dragist saman eða jafnist út að nýju.“

Ég bíð enn þá eftir því að neyslan jafnist út að nýju á áfengum bjór. Hún hefur sko ekki jafnast út, hún hefur bara aukist í sífellu. Ég segi við sjálfan mig: Ef ég hef í huga það sem gerst hefur hér síðan bjórinn var leyfður — og ég segi það aftur áður en menn spyrja: Nei, ég vil ekki banna hann aftur — en eigum við ekki að læra af þessari þróun? Eigum við ganga ofan í nákvæmlega sömu forarvilpuna aftur eða eigum við bara að ganga hér um bláeygð og segja: Það gerist ekkert þarna næstu 10–15 árin?

Mig langar ekki að standa frammi fyrir þeirri staðreynd eftir 10–15 ár að hér sé áfengisneysla orðin10 lítrar af hreinum vínanda á mann. Menn segja: Unglingadrykkja hefur minnkað á meðan áfengisútsölum hefur fjölgað. Rétt. Við erum búin að vera mjög heppin. Við erum búin að vera með mjög gott forvarnastarf og það kemur líka heim og saman við að aukningin í áfengisverslunum hefur verið á stöðum þar sem engin áfengisútsala var. Hér í Reykjavík mundi þeim líklega fjölga þrefalt til fjórfalt ef áfengissalan yrði sett í matvöruverslanir, en ég á ekki von á því að fjórir kaupmenn mundu streyma til Þórshafnar á Langanesi til þess að setja upp verslun með áfengi, en sú aukning yrði marktæk í framboði á höfuðborgarsvæðinu. Og þegar ég segi aukning á framboði segi ég jafnframt: Vöruúrval mun dragast saman.

Ég meina, Hagar og Kaupás með svona fimm hundruð tegundir? Nei. Þeir verða með Hagabjór og Bónusbjór og eitthvað svoleiðis, og kassavín með mynd af grísnum. En fjölda tegunda? Nei. Þeir munu örugglega kaupa upp einhverja heildsala hérna og beita þá sömu brögðum og aðra. Það verður fróðlegt þegar málið fer til nefndar. Ég ætlast til að það fari til efnahags- og viðskiptanefndar vegna þess að þetta mál varðar fjárhag ríkisins fyrst og fremst. Það er alveg sjálfsagt að það fari til heilbrigðisnefndar líka og að hún gefi nákvæma umsögn um málið. Það er alveg gráupplagt að menn fái landlækni fyrir nefndina og hlusti á hann og það er alveg gráupplagt að menn fái heilbrigðisráðherra til sín. Það verður þá alla vega að spyrja hann út í stefnu í áfengis- og vímuvörnum til ársins 2020 sem var gefin út af velferðarráðuneytinu í desember 2013 þar sem finna má yfirmarkmið í áfengis- og vímuvörnum í sex liðum. Hvaða markmið er efst þar? Að takmarka aðgengi að áfengi og öðrum vímugjöfum.

Síðan minnast menn á það, og það er eitt grínið í þessari greinargerð, að skotfæri séu líka hættuleg vara. Jú, jú, ég er þakklátur fyrir það að þegar ég fer í Ellingsen áður en ég fer á gæsaskytterí að ég þarf að sýna byssuleyfið mitt og vera edrú þegar ég kaupi skotin. En ég veit ekki um neinn sem hefur fíkn í haglaskot. Það er alveg nýtt fyrir mér. Haglaskot eru jú hættuleg en þau valda ekki fíkn eins og áfengi. Tóbakið gerir það vissulega líka og það er búið að þrengja aðgengi að því með marktækum árangri. Þeim sem reykja að staðaldri hér á landi hefur fækkað mjög. Ætlum við að fara að fórna öllum þeim árangri sem þar hefur náðst?

Herra forseti. Mér þykir verst að hafa ekki lengri tíma til ráðstöfunar því að ég á a.m.k. annað eins eftir, en ég vænti þess að ég komi þá í ræðustól aftur. En við skulum heldur ekki gera lítið úr þessari áskorun hér þar sem menn biðja okkur að hugsa okkur um áður en við leyfum þetta.