144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[19:21]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt, mér finnst íhaldsemi góð og ég er íhaldsmaður, en ég er ekki afturhaldsmaður. Þar liggur kannski munurinn. Ég á voðalega erfitt með að sjá að við séum sérstök fyrirmynd annarra þjóða þegar kemur að brennivínsbrúki, ekki í minni tíð, ekki frá því að ég byrjaði að brúka það með ríkiseinokun alla tíð og með mjög takmörkuðu aðgengi á sínum tíma. Ég þurfti að bíða klukkutímum saman fyrir utan búðina við Snorrabraut og þetta var allt afgreitt yfir borðið.

Ætla menn að halda því fram í dag að ástandið hjá þjóðinni þegar kemur að alkóhóli sé verra núna en var fyrir 25 eða 35 árum? Ég segi nei. Ég held að við eigum að líta svo á að einstaklingurinn verði svolítið að bera ábyrgð á sjálfum sér og að hér sé ekki einokun á vöru (Forseti hringir.) sem er lögleg og eðlileg.