144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[19:28]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Sjálfur er ég ekki bindindismaður á áfengi. Ég horfi hins vegar til þess að áfengi er skaðlegt og veldur samfélaginu miklum kostnaði og mörgum einstaklingum miklu tjóni og skapar þeim mikil vandræði. Ég er ekki þar með sagt á því að við eigum að banna áfengi. Það eru vissir hlutir sem við ráðum ekki við. Ég er sammála hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni um að við séum ekki að fara að skrúfa klukkuna til baka varðandi bjórinn, alls ekki, en ég fagna því að hér skuli kominn þingmaður sem hefur hugrekki til að ræða þessi mál eins og þau eru.

Hvað var það sem andstæðingar bjórsins sögðu á sínum tíma? Þeir eru nú hæddir og spottaðir. Þeir sögðu: Það er mjög líklegt að þetta muni leiða til aukinnar áfengisneyslu. Hver var niðurstaðan? Það varð niðurstaðan. Það var nákvæmlega það sem gerðist. Það er ekki þar með sagt að þeir vilji skrúfa klukkuna til baka að þessu leyti. (Gripið fram í: Af hverju ekki?) Hv. þingmaður spyr af hverju ekki. Við skulum taka umræðu um það síðar. Það er sumt í veruleikanum þess eðlis að við ráðum ekki við það.