144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[19:29]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er alveg laukrétt hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni. Auðvitað skrúfum við ekki klukkuna til baka og við tökum ekki til baka það sem gert er. En ég ítreka það sem ég sagði áðan: Við lærum af þeirri reynslu sem við ávinnum okkur. Þess vegna förum við ekki sömu leið og áður, þ.e. þá leið sem hefur sannað sig að vera til þess að auka neyslu á áfengi. Líkt og menn sögðu hér áður og fyrr: Bjór er líka áfengi. Hann er aðeins sakleysislegri í augum margra en þess vegna hættulegri ungu fólki en öðrum. Við sem ekki erum bindindismenn en höfum þó nokkra reynslu af því að drekka áfengi ættum að geta varast hann. Samt er það ekki raunin, eins og ég sagði áðan. Fólk á miðjum aldri hefur ekki höndlað bjórinn og er þess vegna orðinn stór kúnnahópur hjá SÁÁ, því miður.

Síðan segja menn líka í þessari umræðu að það sé svo mikið af fjármunum bundið hjá ÁTVR. En hvað kosta lýðheilsusjúkdómarnir þegar þeir hellast yfir okkur?