144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

hagur heimilanna.

[10:54]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvar ég á að byrja vegna þess að allt sem hv. þingmaður sagði, hvert einasta atriði, er rangt. Hv. þingmaður hefur (Gripið fram í.) oft og tíðum sýnt af sér ósvífni hér í ræðustól en í þetta skipti tókst honum að halda heila ræðu þar sem hann fór ekki með eitt atriði rétt, svo það er mjög erfitt að svara þessari fyrirspurn ef fyrirspurn skyldi kalla.

Þó er rétt, af því að hv. þingmaður fer í sögulegt yfirlit, að bera þær aðgerðir sem stjórnvöld ráðast í núna saman við aðgerðir síðustu ríkisstjórnar, annars vegar í skattamálum og hins vegar í málefnum heimilanna. (Gripið fram í.) Í skattamálum er verið að ráðast í breytingar sem munu auka kaupmátt heimilanna, munu auka ráðstöfunartekjur allra heimila með ólíkar tekjur. Markmiðið er að auka ráðstöfunartekjur þeirra allra og þá sérstaklega líta til þeirra sem eru með lægri og millitekjur. Það er meðal annars gert með áframhaldandi skattalækkunum, ekki hækkunum heldur skattalækkunum, þannig að eftir þetta fjárlagafrumvarp, rétt eins og eftir það síðasta, verður fjármagni skilað til heimilanna, 40 milljörðum með frumvarpinu nú.

Jafnframt er verið að ráðast í mismunandi aðgerðir til að takast á við skuldavandann, aðgerðir sem hefði mátt ráðast í miklu fyrr með hagkvæmari hætti eins og bent var á allt síðasta kjörtímabil, en ríkisstjórnin sem þá sat sveik loforð sem gefin höfðu verið um að nýta tækifærin sem þá voru fyrir hendi til að lækka skuldir heimilanna. Og hvað gerði sú ríkisstjórn í skattamálum? Hún hækkaði skatta. Hún hækkaði álögur á öll heimili yfir línuna á öllum sviðum. Þar þurfti ekki að líta á einhverja heildarmynd. Það var nóg að líta á hvaða skatt sem var því að allir hækkuðu þeir. Það urðu 200 breytingar á skattkerfinu á einu kjörtímabili, allt meira og minna til hækkunar, auknar álögur á heimilin sem núna er loksins verið að létta af þeim. (Gripið fram í.)