144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

hagur heimilanna.

[10:58]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég ítreka það sem ég sagði áðan. Hv. þingmaður fer með rangt mál í öllum atriðum. (Gripið fram í: Er það?) (Gripið fram í: Ha?) Ríkisstjórnin er ekki að hækka skatta, (Gripið fram í: Er ekki búið að hækka álögur?) hún er að lækka skatta rétt eins og hún gerði við síðustu fjárlög. Hún er að lækka álögur á heimilin, hún er að lækka álögur á öll heimili, ólíkt því sem síðasta ríkisstjórn gerði ár eftir ár eftir ár þegar hún jók álögur á öll heimili á allan mögulegan hátt. Og það að hv. þingmaður skuli leyfa sér, eins og honum er nú svo tamt, eina ferðina enn að snúa út úr með því að tala um einhverja heita potta er auðvitað óboðlegur málflutningur, talandi um óboðlegan málflutning. En þessu eigum við að venjast frá hv. þingmanni. Og af því að hv. þingmaður áréttar það sem hann sagði í skuldamálunum þá vil ég árétta það sem ég sagði að síðasta ríkisstjórn sveik þau fyrirheit sem hún gaf um að lækka skuldir heimilanna þegar var gullið tækifæri (Gripið fram í.) til þess að láta heimilin njóta vafans, til að gefa heimilunum forgang gagnvart fjármálafyrirtækjunum. Síðasta ríkisstjórn barðist fyrir því að koma skuldum (Gripið fram í.) fallinna einkafyrirtækja á heimilin. Þessi ríkisstjórn færir skuldir heimilanna niður og skattleggur (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) fjármálafyrirtækin um tugi milljarða sem samkvæmt skattakenningum vinstri manna síðasta ríkisstjórn gaf fjármálafyrirtækjunum þá, tugi milljarða.