144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

staða verknáms.

[11:14]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda þessa þörfu umræðu sem er ekki ný af nálinni. Hins vegar virðist skorta á að gripið sé til róttækra aðgerða til að auka veg starfs-, verk- og tæknimenntunar í landinu.

Á iðnþingi sem haldið var í Reykjavík árið 2002 fjallaði Baldur Gíslason, þá skólameistari Iðnskólans í Reykjavík, um stöðu og framtíð iðnmenntunar á Íslandi og kom víða við. Hann taldi mikilvægt á þeim tíma að atvinnulíf og skólar settu sér sameiginleg markmið og sköpuðu iðn- og starfsmenntun nýja ímynd. Baldur sagði einnig að of fáir nemendur legðu stund á iðn- og starfsnám og það væri mikið áhyggjuefni hversu fáir innrituðust í slíkt nám. Hann tók dæmi um þá þróun og benti á að á árunum 1956–1960 hefðu 37% nemenda í framhaldsskólum stundað iðnnám en árið 2002 var hlutfallið komið niður fyrir 20%. Þá þegar fóru um 90% hvers árgangs í framhaldsnám. Ljóst er að þetta vandamál hefur verið lengi til staðar og íslensk yfirvöld virðast hafa flotið sofandi að feigðarósi.

Þingveturinn 2005–2006 lagði Samfylkingin fram þingsályktunartillögu þess efnis að Alþingi ályktaði að fela menntamálaráðherra að skipa í starfshóp fulltrúa þingflokkanna, atvinnulífsins og skólasamfélagsins sem vinni tillögur um átak til að efla starfsnám í framhaldsskólum. Þeirri tillögu var vísað til menntamálanefndar og þar dagaði hana uppi.

Á áðurnefndu iðnþingi árið 2002 velti Baldur Gíslason fyrir sér hvað réð þróun í iðnnáminu og benti á að fjárhagsstaða skólanna hefði verið erfið og margir skólar ættu í verulegum erfiðleikum við að sinna skyldum sínum. Ekki síst væri það vegna þess að iðn- og verknámsskólar þurfa mikið fjármagn til tækjakaupa og enn fremur að námshópar eru eðlis námsins vegna miklu fámennari en í bóknámsskólum.

Virðulegi forseti. Það er nákvæmlega sama staða og er í dag. Það er sorgleg staðreynd að enn 12 árum síðar skulum við ekki enn vera komin lengra. Verði ekki aukið verulega í fjárveitingar til framhaldsskólanna er lítil ástæða til að ætla að þessir hlutir séu að fara í viðunandi horf.