144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

staða verknáms.

[11:25]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að hafa hvatt til þessarar umræðu og ég vil einnig þakka fyrir að hún komi í kjölfarið á umræðunni sem var hér í gær um takmarkað aðgengi að framhaldsskólum þar sem þessi mál skarast umtalsvert.

Í umræðunni í gær kom fram að hæstv. menntamálaráðherra vill að framhaldsskólarnir verði ungdómsskólar og að fullorðnir sæki annað í bóklega menntun og því leggur hann til fjöldatakmarkanir á næsta ári í þá veru. Bóknámsnemendur sem eru 25 ára og eldri fá ekki lengur að stunda bóklegt nám í opinbera framhaldsskólakerfinu. Vandinn er hins vegar sá að meðalaldur þeirra sem stunda nám á verknámsbrautum er rúmlega 25 ár, þannig að sú aðgerð að meina fullorðnum nemendum í bóknám gerir skólana ekki að ungdómsskólum. Það verða áfram margir fullorðnir nemendur á verknámsbrautunum.

Þessi orð hæstv. menntamálaráðherra leiða hugann að þróun framhaldsskólastigsins hér á landi og hvort næst á dagskrá sé að aðgreina bóknámsskóla og verknámsskóla almennt í tvær aðskildar stofnanir. Er það menntastefnan sem á að reka og kynna hér upp úr áramótum? Hvernig mun sú stefna þjóna menntunarþörf og aðgengi að menntun á landsbyggðinni?

Á sjöunda áratugnum komu fyrstu áfangaskólarnir fram og nú eru fjölbrautaskólar með áfangakerfi algengasta formið. Það gengur meðal annars út á það að nemendur á mismunandi brautum geta setið saman í einstökum áföngum. Verknámsbrautir eru samsettar með bæði bóklegum áföngum og verklegum. Nemendur á stúdentsbrautum og til dæmis húsasmíðabraut sitja saman í bóklegum áföngum. Ætli það verði sem sagt þannig á næsta ári að til að fá inngöngu í framhaldsskóla landsins verði fullorðnir nemendur að plata og segjast vera á húsasmíðabraut til að fá að taka einhverja bóklega áfanga í heimabyggð?