144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

staða verknáms.

[11:27]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Virðulegi forseti. Til að auka veg starfs-, verk- og tæknimenntunar í landinu þarf að koma til aukið fjárframlag til þeirra skóla sem bjóða upp á þetta nám. Hver nemandi á verk- og starfsnámsbrautum framhaldsskólanna er mun dýrari en bóknámsnemandi. Ég velti fyrir mér hvort það geti verið hluti af vandanum í öllum þeim niðurskurði sem hefur átt sér stað í framhaldsskólakerfinu. Má ekki ætla að nemendum sé frekar beint inn á ódýrari námsbrautir?

Í skýrslu sem Elsa Eiríksdóttir skrifaði árið 2012 og gefin var út af Samtökum iðnaðarins, mennta- og menningarmálaráðuneyti og Sambandi íslenskra sveitarfélaga fjallaði hún um raunvísinda- og tæknimenntun og stöðu íslenskra nemenda og framtíðarþörf samfélagsins. Þar kemur meðal annars fram að áhugi á iðn- og verknámi virðist ekki mikill hjá nemendum í efstu bekkjum grunnskóla og flestir ætli sér í bóklegt framhaldsnám í mennta- og fjölbrautaskólum eftir grunnskóla. Þetta endurspegli þá almennu áherslu sem lögð hefur verið á bóknám á kostnað verknáms.

Einnig kemur fram að ungmenni virðast velja bóknám fram yfir iðn- og verknám þrátt fyrir að hafa meiri áhuga á verklegu námi og könnun leiddi í ljós að af 248 ungmennum í 10. bekk sagðist helmingur þeirra hafa meiri áhuga á verknámi á sama tíma og 70% þeirra ætluðu sér í bóknám. Það segir okkur að leggja verður mun meiri áherslu á öfluga námsráðgjöf í grunn- og framhaldsskólum enda töldu viðmælendur í skýrslu Elsu að mikið vantaði upp á kynningar á iðnnámi í grunn- og framhaldsskólum. Þá má velta fyrir sér hvort kynning fyrir foreldra og almennt á verk- og starfsnámi skipti ekki líka máli í þessu sambandi.

Herra forseti. Það er gífurlega mikilvægt fyrir okkur öll sem komum að þessum málum að snúa bökum saman og stöðva þessa óheillaþróun ef hreinlega á ekki illa að fara. Róttækra aðgerða er þörf til eflingar þessu námi þar sem þegar vantar fólk í raunvísinda-, verk- og tæknistörf. Þörfin mun aukast verulega á næstu missirum.

Ég endurtek orð mín frá umræðunni í gær að menntun, sama hvers eðlis hún er, er mikilvægasta fjárfesting þjóðarinnar.