144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

opinber fjármál.

206. mál
[11:39]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli á ný fyrir frumvarpi til laga um opinber fjármál á þskj. 232, máli 206, en málið var fyrst lagt fyrir Alþingi á síðasta vorþingi. Frumvarpið felur í sér heildarlöggjöf um fjármál ríkis og sveitarfélaga þar sem áhersla er lögð á langtímastefnumörkun opinberra fjármála og aukinn aga við framkvæmd fjárlaga.

Strangar fjármálareglur eru meðal nýmæla í frumvarpinu. Í þeim er kveðið á um að hið opinbera verði að jafnaði rekið með afgangi og að skuldir hins opinbera fari ekki yfir 45% af landsframleiðslu hverju sinni. Verði frumvarpið að lögum munu breytingar á framkvæmd reikningshalds og uppgjöri ríkisins leiða til aukins skýrleika um stöðu opinberra fjármála og stuðla að auknum trúverðugleika.

Reikningshald mun byggja á alþjóðlega viðurkenndum viðmiðum og samanburður við opinber fjármál annarra ríkja verður auðveldara. Stefnumörkun um opinber fjármál mun byggja á skýrum ferlum og skal hún samkvæmt frumvarpinu reist á eftirtöldum grunngildum: Sjálfbærni, varfærni, stöðugleika, festu og gagnsæi.

Markmið nýrrar löggjafar er að nýta betur almannafé og stuðla með styrkri efnahagsstjórn að stöðugleika og sífellt betri lífskjörum. Frumvarpinu má skipta í fjóra meginþætti. Í fyrsta lagi felur það í sér skilgreint og formlegt ferli um langtímastefnumörkun og samhæfingu í fjármálum ríkis og sveitarfélaga. Í öðru lagi er í frumvarpinu mælt fyrir um vandaðan undirbúning frumvarps til fjárlaga og breytta framsetningu þess til að styrkja fjárlagaferlið og tryggja yfirsýn. Í þriðja lagi er í frumvarpinu lagt til að eftirlit með framkvæmd fjárlaga verði styrkt til að draga úr frávikum og í fjórða lagi felur frumvarpið í sér breytingar á reikningsskilum ríkisins og upplýsingagjöf um opinber fjármál, allt þetta til að tryggja gagnsæi.

Ýmsar ástæður eru fyrir því að tímabært er orðið að endurskoða lög um fjárreiður ríkisins sem tóku gildi árið 1998. Efla þarf enn frekar stefnumörkun og aga í fjármálum hins opinbera og leggja áherslu á forgangsröðun útgjalda til lengri tíma. Að sama skapi er mikilvægt að auka samhæfingu milli ríkis og sveitarfélaga við gerð áætlana um umfang starfsemi sinnar, framkvæmdir og afkomu.

Á vettvangi Alþingis hefur of lítið verið fjallað um horfur og framþróun ríkisfjármálanna eða fjármála sveitarfélaga til lengri tíma og er í frumvarpinu lagt til grundvallar að þingið komi frekar að stefnumörkun á því sviði. Við undirbúning frumvarpsins var horft til þeirra áherslna sem einkennt hafa breytingar á löggjöf annarra ríkja um opinber fjármál, m.a. á Norðurlöndum, en víða hefur löggjöf um opinber fjármál verið endurskoðuð til að stuðla að sjálfbærni og stöðugleika á grunni langtímastefnumótunar.

Frumvarpið gekk til nefndar síðasta vor og var þá óskað eftir umsögnum. Nokkrar breytingar hafa verið gerðar á frumvarpinu sem taka mið af ábendingum og athugasemdum sem bárust fjárlaganefnd. Breytingarnar varða einkum ákvæði um flutning fjárheimilda milli ára, 30. gr., ákvæði um meðferð og fyrirsvar eigna og réttinda í eigu ríkisins, 42. gr., ákvæði um reikningsskilaráð, 62. gr., og bráðabirgðaákvæði um gildistöku laganna, auk breytinga í greinargerð í umfjöllun um fjármálareglur vegna ábendinga frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Auk þess voru gerðar nokkrar minni háttar orðalagsbreytingar í ljósi umsagna. Þetta eru þessar helstu breytingar.

Nánar um þær, breyting á 30. gr., um flutning fjárheimilda milli ára, snýr að því að nú vísar ákvæðið til heimildar til flutnings fjárheimilda, sem sagt með áherslu á orðið heimild. Þá er gerð krafa um að hlutaðeigandi ráðherra greini fjármálaráðherra frá því hvernig hann hyggist tryggja að markmið fjárlaga þess fjárlagaárs sem hafið er séu virt leiti hann heimildar um flutning fjárheimilda milli ára vegna umframgjalda.

Þetta er mikilvægt þar sem flutningur fjárheimilda felur í sér frávik frá fyrri áætlunum og óeðlilegt er að framkvæmd slíkrar heimildar dragi úr gildi áætlana fjárhagsársins.

Breyting á 42. gr., um meðferð og fyrirsvar eigna og réttinda í eigu ríkisins, snýr að því að nú er í ákvæðinu mælt fyrir um að ráðherra móti almenna stefnu um eignir og réttindi í eigu ríkisins. Slík stefna skal fjalla um markmið og áherslur ríkisins um meðferð og nýtingu eigna og réttinda eftir eignaflokkum. Bent skal á að í 43. gr. er mælt fyrir um eigandastefnu ríkisins í félögum eingöngu. Mikil verðmæti felast jafnframt í öðrum eignum og réttindum í eigu ríkisins og eðlilegt að mótuð sé almenn stefna um nýtingu þeirra.

Þessi grein kallast þannig á við 43. gr. þar sem eingöngu er talað um eignarhlut í félögum.

Breyting á 62. gr., um reikningsskilaráð ríkisins, snýr að því að ákvæðið mælir nú fyrir um að ríkisendurskoðandi situr fundi ráðsins með málfrelsi og tillögurétt í stað þess að vera skipaður í ráðið. Ástæða þeirrar breytingar er meðal annars sú að reikningsskilaráði er meðal annars ætlað að fjalla um heimildir til að víkja frá fyrirmælum alþjóðlegra reikningsskilastaðla og því fer betur á því að ríkisendurskoðandi eigi ekki sæti í ráðinu stöðu hans vegna.

Breytingu á bráðabirgðaákvæði frumvarpsins er einkum ætlað að koma í veg fyrir óvissu um á hvaða grunni frumvarp til fjárlaga, fjáraukalaga og lokafjárlaga til og með árinu 2016, auk ársreikninga ríkisaðila, skuli sett fram. Um framsetningu þeirra fyrir tilgreint tímabil gilda núgildandi lög um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997.

Þá hafa verið gerðar breytingar á bráðabirgðaákvæðinu á þann hátt að ekki fer á milli mála að uppgjör ríkisreiknings til og með árinu 2016 skuli fara eftir lögum um fjárreiður ríkisins, að teknu tilliti til ákvarðana ríkisreikningsnefndar.

Enn fremur er í bráðabirgðaákvæðinu tekið fram að ef gildistaka einstakra ákvæða frumvarpsins, samkvæmt ákvæði til bráðabirgða, feli í sér að forsendur fyrir framkvæmd fjárlaga eru ekki fyrir hendi gildi ákvæði laga nr. 88/1997. Á það að koma í veg fyrir skörun frumvarpsins og gildandi laga um fjárreiður ríkisins.

Að lokum voru gerðar breytingar á annars vegar athugasemdum við 7. gr. og almennri greinargerð frumvarpsins varðandi samræmi skilyrða 7. gr. um fjármál hins opinbera við fjármálareglur sveitarfélaga samkvæmt sveitarstjórnarlögum. Eftir sem áður ber hverju sveitarfélagi að fylgja fjármálareglum sveitarstjórnarlaga, en með skilyrðum 7. gr. frumvarpsins eru jafnframt sett fram skilyrði sem gilda um A-hluta ríkissjóðs og A-hluta sveitarfélaga. Skilyrði frumvarpsins eru því önnur en þær fjármálareglur sem sveitarfélögin vinna nú eftir samkvæmt sveitarstjórnarlögum þar sem bæði A- og B-hlutar sveitarfélaga eru lagðir saman í samstæðureikningi.

Að þessum skýringum gefnum sem snúa að breytingunum sérstaklega frá því sem var í frumvarpinu í vor er rétt að snúa sér að meginatriðum frumvarpsins sem ég gerði ítarlega grein fyrir þegar ég mælti fyrir málinu síðasta vor en nauðsynlegt er að fara yfir að nýju.

Stefnumörkun um opinber fjármál mun framvegis ná til ríkis og sveitarfélaga og þeirra stofnana og fyrirtækja sem eru að hálfu eða meiri hluta í eigu þeirra. Lögð er áhersla á formlegri stefnumótun og til lengri tíma en áður hefur tíðkast. Annars vegar skal hver ríkisstjórn leggja fram á Alþingi fjármálastefnu í upphafi kjörtímabils. Í fjármálastefnu skal setja fram meginmarkmið næstu fimm ára um umfang og þróun opinberra fjármála, þar með talið um afkomu og efnahag ríkis og sveitarfélaga, auk þess sem greint skal á almennan hátt frá því hvernig grunngildum um sjálfbærni og stöðugleika verði náð.

Hins vegar er gert ráð fyrir að ríkisstjórn leggi fram fyrir 1. apríl ár hvert fjármálaáætlun þar sem meðal annars eru sett fram ítarleg markmið um þróun opinberra fjármála fyrir bæði ríki og sveitarfélög til fimm ára og gerð grein fyrir tekjuöflun og skiptingu útgjalda milli málefnasviða. Fjármálaáætlun felur því í sér nánari útfærslu á markmiðum fjármálastefnu og greinir frá lykilforsendum fyrir gerð frumvarps til fjárlaga sem lagt er fram að hausti.

Fjármálareglur samkvæmt frumvarpinu skulu tryggja sjálfbærni og stöðugleika fjármála hins opinbera til lengri tíma. Með þeirri breytingu sem birtist hér í fjármálaáætluninni er þátttaka þingsins orðin allt önnur og meiri í því að taka til umfjöllunar áður en lögð er lokahönd á gerð fjárlaga fyrir komandi ár markmið til dæmis um heildarafkomu.

En aftur að fjármálareglunum. Í fyrsta lagi skal heildarafkoma yfir fimm ára tímabil ávallt vera jákvæð og árlegur halli ávallt undir 2,5% af landsframleiðslu.

Í öðru lagi skulu heildarskuldir, að frátöldum lífeyrisskuldbindingum og viðskiptaskuldum og að frádregnum sjóðum og bankainnstæðum, vera lægri en sem nemur 45% af vergri landsframleiðslu.

Í þriðja lagi skal stuðla markvisst að niðurgreiðslu skulda. Þannig er gert ráð fyrir að ef skuldahlutfall hins opinbera er hærra en 45% skuli sá hluti sem umfram er lækka að meðaltali á hverju þriggja ára tímabili um að minnsta kosti 5% á hverju ári. Þar er átt við 5% af því sem umfram er.

Eftir því sem skuldir lækka frekar og falla undir skuldaviðmiðið, hvort sem er vegna aðhalds í opinberum rekstri, auknum hagvexti eða vegna þess að undið er ofan af stórri eigna- og skuldastöðu sem myndaðist í kjölfar hrunsins, ætti að taka skuldaviðmiðið til endurskoðunar. Í því sambandi mætti til dæmis fækka frádráttarliðum þannig að horft verði til brúttóskulda með sama hætti og gert er í Evrópusambandinu. Með því mætti viðhalda því aðhaldi sem skuldaviðmiðið setur nú, en ljóst er að lágar opinberar skuldir eru forsenda þess að tryggja megi efnahagslegan stöðugleika til frambúðar í litlu, opnu hagkerfi líkt og því íslenska.

Þetta held ég að sé mikilvægt að hafa í huga í framhaldi þessa máls, þ.e. að við gætum þurft á komandi árum að meta skuldaregluna, sérstaklega með það í huga að þrengja skilgreininguna enn frekar, og heilt yfir tel ég að mikilvægt sé að samstaða náist um það að við Íslendingar setjum okkur nokkuð strangari skuldaviðmið en víðast hvar annars staðar tíðkast með hliðsjón af því að við búum í nokkuð sveiflukenndu hagkerfi af ýmsum ástæðum. Höfum það líka í huga í þessu sambandi hversu miklu það skipti til að fást við fjármálakreppuna að hafa haft lág skuldahlutföll.

Þau skilyrði, þessar fjármálareglur frumvarpsins, setja ákvörðunum um umfang og þróun starfsemi hins opinbera skorður. Flest ríki innan OECD hafa á undanförnum árum tekið upp fjármálareglur af einhverjum toga og eru áhrif þess almennt talin mjög jákvæð.

Til viðbótar við þær fjármálareglur sem hér eru settar fram hefur verið nokkuð horft til þess hvort bæta ætti við reglu sem takmarki útgjaldavöxt. Auðvelt er að setja sig til dæmis inn í stöðuna frá 2004 til 2006 þar sem skuldaþakið í sjálfu sér hefði ekki sett opinberum fjármálum mjög þröngar skorður þar sem skuldir höfðu að verulegu leyti þá verið greiddar upp. En margur gæti haldið því fram að þá hefði verið ágætt að hafa reglu um útgjaldavöxt. Rétt er að koma því að í umræðunni að það var jafnframt skoðað í þeirri vinnu sem átt hefur sér stað við þetta mál hvort ástæða væri til að hafa slíka reglu jafnframt þeim sem ég hef hér verið að gera grein fyrir. Slík regla getur verið góðra gjalda verð. Þó er hætt við að það muni draga úr gagnsæi umgerðarinnar og þar með virkni hennar með fjölgun reglnanna. Það geta líka komið upp árekstrar milli ólíkra viðmiða.

Framkvæmd útgjaldareglu getur reynst erfið í litlu, opnu, sveiflukenndu hagkerfi sem okkar og þess vegna er ekki gert ráð fyrir slíkri reglu samhliða öðrum en þrátt fyrir að ekki sé lagt til að tekin verði upp eiginleg útgjaldaregla munu markmið og takmarkanir á útgjaldavexti birtast í fjármálastefnu og fjármálaáætlun, enda ná skilyrði frumvarpsins um stöðugleika til beggja þessara áætlana. Með stöðugleika er vísað til þess sjónarmiðs að ávallt sé stefnt að því að árleg útgjöld hins opinbera, að frádregnum vaxtaútgjöldum, vaxi ekki að raunvirði umfram langtímaraunvöxt landsframleiðslu. Maður sæi þá fyrir sér að slíkum viðmiðum yrði teflt fram í umræðunni til þess að meta hversu sjálfbær langtímaáætlunin í þessu samhengi er.

Ekki síður gæti þarna reynt á fjármálaráðið en frumvarpið gerir ráð fyrir að komið verði á fót fjármálaráði. Skal það meta hvort fjármálastefna og fjármálaáætlun fylgi grunngildum frumvarpsins og öðrum tölulegum skilyrðum þess, þar með talið fjármálareglum. Með því verður löggjafar- og framkvæmdarvaldi veitt faglegt aðhald og stuðlað að auknum trúverðugleika opinberrar fjármálastjórnar. Fjármálaráð eru starfrækt víða um heim og reynsla af starfsemi þeirra þykir góð en algert grundvallaratriði er að fjármálaráðið sé sjálfstætt, óháð og faglega skipað.

Eitt af mikilvægari nýmælum frumvarpsins felst í breyttri framsetningu fjárlagafrumvarpsins. Tilgangurinn er að gera Alþingi betur kleift að greina áherslur og forgangsröðun frumvarpsins. Framsetningu fjárlaga er breytt á þann veg að útgjöldum verður skipt milli 32–34 málefnasviða þó að útgjöld verði einnig eftir sem áður skilgreind á grundvelli verkaskiptingar framkvæmdarvaldsins, þ.e. eftir ráðuneytum.

Til viðbótar við breytta framsetningu er gert ráð fyrir vandaðri stefnumótun fyrir málefnasvið og málaflokka sem hlutaðeigandi fagráðherra ber ábyrgð á. Í stefnu fyrir málefnasvið og málaflokka skal meðal annars greint frá gæða- og þjónustumarkmiðum og hvernig markmiðum verði náð með tilliti til fjármuna. Lögð er áhersla á að tryggja samræmi stefnumótunar ráðherra og þeirra markmiða sem fram koma í fjármálaáætlun sem Alþingi hefur samþykkt. Stefnumótunin er því grunnur ráðstöfunar fjárheimilda til málefnasviða og málaflokka eins og hún hefur birst í fjárlögum ár hvert. Forsenda stefnumótunar fyrir málefnasvið og málaflokka er ríkt samstarf ráðuneyta og stofnana, meðal annars um gerð þriggja ára áætlana stofnana. Í þeim skal sýna hvernig áætlaðar fjárveitingar til stofnana samræmast annars vegar markmiðum í rekstri hlutaðeigandi stofnunar og hins vegar þeim gæða- og þjónustumarkmiðum sem fram koma í stefnumótun málefnasviðsins.

Samráð var haft við forstöðumenn ríkisstofnana við gerð þessa nýmælis frumvarpsins og er almenn samstaða um mikilvægi þessa í samskiptum ráðuneyta og stofnana. Enn fremur eru skyldur ráðherra gagnvart stofnunum betur skilgreindar og ábyrgðarskil skýrð.

Mikilvægt er að gefa þeirri áherslubreytingu í frumvarpinu gaum. Með þessu eru lagðar töluvert auknar byrðar á ráðuneytin. Þetta mun kalla á meiri langtímahugsun, ekki einungis í fjármálaráðuneytinu og meðförum málsins á þingi, heldur í öllum ráðuneytum Stjórnarráðsins. Mikilvægur liður í undirbúningi þess að frumvarpið geti tekið gildi sem lög er að ráðuneytin nýti vel tímann til að undirbúa sig fyrir slíka stefnumótun og áætlanagerð.

Þetta er meðal ástæðna fyrir því að ekki er raunhæft að lög þessi taki gildi strax um næstu áramót heldur verður að gefa innleiðingunni ákveðinn tíma.

Skyldur ráðherra gagnvart stofnunum eru betur skilgreindar og ábyrgðarskilin skýrari. Það felur meðal annars í sér að ráðherra þarf að svara forstöðumönnum sem hafa vakið athygli á því að fjárveitingar viðkomandi árs eru of knappar til að standa undir þeim gæða- og þjónustumarkmiðum sem á viðkomandi stofnun hvíla.

Fallist ráðherra ekki á þær ráðstafanir sem forstöðumaður hefur lagt til skal ráðherra innan 15 daga greina frá því hvernig viðkomandi forstöðumaður eigi að bregðast við stöðunni.

Í þessu efni er rétt að hafa í huga að í frumvarpinu er jafnframt gert ráð fyrir að ráðherrann fái í hendur tæki til að bregðast við breyttum aðstæðum. Þá ber að geta þess að fjárveitingar til ríkisaðila og til verkefna verða sýndar í sérstöku fylgiriti með fjárlögum en umræður um fjárheimildir til einstakra stofnana og viðfangsefna hafa oft reynst tímafrekar í þinglegri meðferð. Sú breyting að tiltaka fjárveitingar til ríkisaðila í sérstöku fylgiriti er liður í því að gera umræðu um fjárlögin markvissari og meira stefnumarkandi um ríkisfjármálin í stað þess að hún snúist um einstakar fjárráðstafanir um of. Þetta felur ekki í sér að tekið sé með nokkru móti frá þinginu að hafa skoðanir á fjárveitingum til einstakra ríkisaðila. Þær munu einmitt liggja frammi í fylgiritinu til umræðu en meginhugsunin er sú að heildarmynd og þau heildaráhrif sem fjárlagafrumvarpið hafi á ríkisfjármálin til lengri tíma eigi að vera í forgrunni.

Miklu skiptir að vel takist til og að góð, almenn sátt verði um þessa breytingu á framsetningu fjárveitinga. Þingið getur breytt frumvarpinu sjálfu og hækkað til dæmis til málefnasviða eða málaflokka fjárheimildir með þeirri skýringu að ekki þyki nægilega mikið fé veitt til einstakra ríkisaðila sem mundi þá í framhaldinu leiða til þess að fylgiritið yrði uppfært af þessari ástæðu.

Með þeim hætti er þingið áfram með virka aðkomu að því hvernig samspil fjárlaganna annars vegar og fylgiritsins hins vegar þróast í þinginu.

Varðandi langtímastefnumótun er það svo að framkvæmdin miðast ekki aðeins við yfirstandandi ár heldur styður við þá langtímastefnu sem mörkuð hefur verið. Þetta er lykilatriði í því markmiði að stuðla að meiri aga í ríkisfjármálunum.

Lögð er áhersla á stefnumótun stofnana og virkara eftirlit hvers ráðherra með útgjaldaþróun málaflokka og ábyrgð forstöðumanna á rekstri ríkisaðila. Markvissara eftirlit er enn fremur tengt ákvæðum til dæmis um varasjóði sem leiða til aukins sveigjanleika hvers ráðherra til að bregðast við frávikum og óvæntri þróun.

Mikilvægt er að tryggja greinargóðar og tímanlegar upplýsingar um stöðu og þróun fjármála hins opinbera svo hægt sé að bregðast við óvæntum atvikum og frávikum. Þannig skal ráðherra fjármála birta ársfjórðungslega upplýsingar um þróun lykilstærða í fjármálum opinberra aðila.

Þá felst í frumvarpinu nýmæli er snýr að ársskýrslu um starfsemi fyrra árs sem hverjum ráðherra verður gert að birta. Í henni skal gera ítarlega grein fyrir niðurstöðu útgjalda innan málefnasviða og málaflokka hans og ávinningi af ráðstöfun fjárveitinga.

Það er brýnt að færa þinginu betri verkfæri til að fylgjast með því hvernig fjárlagaframkvæmdin gengur eftir. Þar er að sjálfsögðu meðal annars horft til framúrkeyrslu einstakra aðila í ríkisrekstrinum, hvort sem um er að ræða stofnanir og aðra rekstraraðila eða einfaldlega bundin útgjöld sem fara fram úr því sem áður hefur verið áætlað.

Frumvarpið miðar enda að því að tryggja Alþingi betri stöðu til að fylgjast með framkvæmd fjárlaga og veita framkvæmdarvaldinu aðhald.

Þingið mun einnig þurfa að standa við eigin áætlanir, eigin ramma sem það setur fjárlagagerðinni með fjármálaáætlun að vori. Það verður vonandi til ákveðinnar einföldunar fyrir þá umræðu sem fer fram að hausti að þingið hafi þá þegar tekið heildarafkomumarkmið svo dæmi sé tekið til umfjöllunar og afgreiðslu. Miklu skiptir að það verði þá ekki ný sjónarmið sem ráði för í umræðunni innan sama árs. Það er á endanum í höndum þingsins sjálfs að gæta þess að sú ákvörðun breytist ekki í grundvallaratriðum.

Þetta tel ég að stórum hluta til verkefnis sem snýr að því að ná samstöðu um ákveðna hugarfarsbreytingu á Alþingi þegar kemur að meðferð fjárlaga, umræðu um fjárlög, langtímastefnumörkun og breyttu verklagi.

Það er reyndar með marga þætti þessa máls að breyta þarf hugarfarinu til þess hvernig við nálgumst verkefnið til að góð samstaða náist um þær tillögur sem liggja fyrir í frumvarpinu.

Vonandi getur frumvarpið sjálft leitt af sér slíka hugarfarsbreytingu að ávinningurinn af breyttri samsetningu, breyttu verklagi, meiri langtímaáherslum, leiði til þess að umræðan breytist og að hér sé meira rætt um stóru myndina og minna um einstakar fjárveitingar til einstakra málaflokka eða ríkisaðila sem þó verða alltaf mikilvægur hluti af umræðunni.

Vinna við frumvarp þetta hófst á síðasta kjörtímabili og ég merkti það á viðtökunum í vor að ágæt samstaða virðist vera þvert á flokka um að gera breytingar á umhverfi ríkisfjármálanna. Ég vonast til þess að sú samstaða haldist enda tel ég að þessar breytingar séu mikilvægar til að bæta stefnumótun í opinberum fjármálum, til að auka aga í ríkisfjármálunum og þar með til að tryggja stöðugleika almennt að því marki sem ríkisvaldinu er unnt að leggja sitt af mörkum á því sviði.

Verði frumvarpið samþykkt á Alþingi á yfirstandandi ári er gert ráð fyrir að gildistaka þess verði 1. janúar 2015. Það er einkum aðlögun að kröfum um stefnumörkun í opinberum fjármálum, stefnumótun fyrir málefnasvið og málaflokka og áhrif nýrra reikningsskilastaðla sem hafa mest áhrif á umfang innleiðingarinnar. Þetta mun allt taka nokkurn tíma og því er gert ráð fyrir að frumvarpið taki ekki strax gildi en ég hygg að ég hafi sagt að gildistakan verði 1. janúar — já, en sem sagt að fjármálastefnan og fjármálaáætlunin komi fyrst fram 1. apríl 2016, þannig að frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2016 svo og frumvörp til fjáraukalaga og lokafjárlaga til og með árinu 2016 skuli fylgja ákvæðum laga um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997, og hið sama gildi um ársreikninga ríkisaðila til og með árinu 2016, lögin taki sem sagt gildi en síðan komi þau til framkvæmda í áföngum.

Ég tel að mikið framfaraskref verði stigið með þessu máli. Þau viðfangsefni sem frumvarpinu er sérstaklega beint að eru alkunn þingmönnum. Núverandi löggjöf hefur reynst vel en nú gefst tækifærið til að stíga næstu skref og tryggja að við náum enn betri árangri í þessum efnum á komandi árum.

Að svo mæltu, herra forseti, legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari og til fjárlaganefndar til að fjalla um málið.