144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

opinber fjármál.

206. mál
[12:11]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ágæt svör. Ég var ánægður með þau. Það er ljóst að þegar illa gengur í einhverri stofnun finnst mér eðlilegt að forstöðumaður og viðkomandi ráðherra ræði vandamálið og skoði hvernig hægt er fara inn fyrir fjárlög og hvort hægt sé að leysa málið á annan hátt.

Varðandi lífeyrisskuldbindingar og annað slíkt er ég á þeirri skoðun að sýna eigi skattgreiðendum og öðrum hvað bíði þeirra, hvað bíði barnanna okkar. Við eigum ekki að fara þá leið sem menn hafa farið víða, ég nefni Grikkland og mörg Evrópusambandslöndin, að sýna ekki skuldbindinguna og láta hana svo detta yfir fólk algerlega óviðbúið síðar. Það er mjög mikilvægt þó að það skekki samanburðinn við útlönd. Þá þarf bara að taka það sérstaklega fram að við Íslendingar erum að sýna raunverulega skuldbindingu en ekki leiktjöld sem eiga að plata.

Varðandi skuldbindingar þá vakna spurningar um skuldbindingar ríkisins varðandi opinbera starfsmenn. Það þarf að borga þeim laun. Er það ekki skuldbinding um áramót, alla vega út uppsagnarfrestinn, að færa það sem skuldbindingu? Eins er það með Tryggingastofnun sem fer með gífurlega fjármuni, 50–60 milljarða á ári, þarf ekki að færa það á hverju ári, eða þangað til maður gæti breytt lögum, sem væntanlega yrði þá ekki gert, sem skuldbindingu á skattgreiðendur? Því að það kemur niður nákvæmlega eins og hvað annað.