144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

opinber fjármál.

206. mál
[12:13]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að hv. þingmaður veki hér máls á mjög mikilvægu atriði. Ég tek undir það með honum að það skiptir mjög miklu að hafa gegnsæi um þessi mál, að okkur sé staðan ljós, að engu sé sópað undir teppið og að það sé dregið fram hvað við höfum raunverulega undirgengist í því að taka á okkur í framtíðinni af skuldbindingum.

Það vekur mann hins vegar mjög til umhugsunar hversu langt mörg önnur ríki ganga í því að draga þetta undan dagsljósinu ef svo mætti að orði komast. Það er kannski ekki að ófyrirsynju vegna þess að mann óar við því hvernig sum af Evrópuríkjunum ætla að rísa undir þeim skuldbindingum sem á þeim hvíla og eru í dag algerlega ófjármagnaðar. Þetta á til dæmis við um lönd eins og Frakkland, ekki bara Grikkland og löndin í Suður-Evrópu heldur stóru ríkin líka. Meira að segja Þýskaland hefur ekki almennilega gert grein fyrir því hvernig þeir hyggjast standa við þær skuldbindingar sem þeir gefa út í dag í lífeyrismálum þó að þar virðist almennt vera til staðar meiri samstaða og meiri agi til að grípa til nauðsynlegra ráðstafana en á kannski við í Frakklandi eins og staðan blasir við manni.

En hér heima fyrir höfum við í fjárlagafrumvarpinu gert því ágæt skil, í greinargerð með frumvarpinu, hvernig staðan er í lífeyrismálunum og hún er býsna alvarleg, bæði í A- og B-deild. Ég sé ekkert annað ráð í B-deildarmálinu en að hefja inngreiðslu sem allra fyrst inn á skuldbindinguna og hefja þannig séð viðbótarsjóðsöfnun fyrir skuldbindingunni, til að greiða inn á þessa skuldbindingu. Í hinu málinu þurfum við að láta á það reyna hvort hægt er að gera víðtækari breytingar um leið og við breytum réttindunum eins og þau standa í dag.