144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

opinber fjármál.

206. mál
[12:18]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst varðandi útgjaldareglu þá var hún tekin til skoðunar og meðal annars borin undir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og aðra erlenda aðila sem hafa veitt okkur ráðgjöf í fjármála- og efnahagsráðuneytinu við undirbúning málsins. Það er einkum skörun við aðrar reglur sem getur valdið vandræðum í framkvæmd. Í máli mínu vakti ég athygli á því að þegar skuldaviðmiðunum hefur verið náð finnst mér að það gæti komið til skoðunar að hallast meira að útgjaldaviðmiði, ekki með því að leggja skuldaviðmiðið af en á meðan við erum að vinna okkur niður fyrir markmiðið getur verið erfitt að hafa jafnframt útgjaldareglu sem togast á við skuldaregluna.

Ég tek síðan undir það með hv. þingmanni að útgjaldareglan er kannski hið eina sanna viðmið um það hvort menn eru tilbúnir til að beygja sig undir harðan aga slíkra reglna. Á það er að líta að grunngildin í frumvarpinu fela í sér eins konar útgjaldareglu. Með því að það ber ávallt að haga fjármálunum með hliðsjón af grunngildunum, um sjálfbærni og varfærni til dæmis, þá á ekki að vera svigrúm til að stórauka útgjöld langt umfram vöxt landsframleiðslunnar. Það á einfaldlega ekki að vera hægt að uppfylla grunnmarkmiðin ef menn eru í langtímaáætlun að gera ráð fyrir útgjaldavexti langt umfram vöxt landsframleiðslu.

Hitt atriðið sem spurt var um, nú er það alveg dottið úr kollinum á mér. (SII: Skuldahlutföllin.) Já, varðandi skuldahlutföllin, þá er ég einfaldlega að vísa til þess að við erum með tiltölulega fábreytt (Forseti hringir.) efnahagslíf á Íslandi með tiltölulega fáum stoðum, erum að miklu leyti háðir (Forseti hringir.) sveiflum náttúrunnar. Ég tel að reynslan sýni að það borgi sig fyrir okkur til lengri tíma að halda skuldum lágum (Forseti hringir.) vegna þess að við getum verið útsett fyrir áföllum.