144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

opinber fjármál.

206. mál
[12:20]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Mig langar aðeins að segja varðandi útgjaldaregluna: Það er rétt, þessi erfiða skörun, en ég held að það skipti samt máli í vinnslu fjárlaganefndar, og ég vil heyra hvort ráðherra sé mér ekki sammála, að reynt sé, þó að það sé ekki ófrávíkjanleg regla, að hafa skýr viðmið um útgjaldavöxt til þess að við fáum þennan pólitíska aga í fjárlagagerðina.

Varðandi skuldahlutföllin þá er ég að einhverju leyti ósammála hæstv. ráðherra. Ég er sammála því að það eru miklar sveiflur í náttúru Íslands. Hann talaði ekki um miklar sveiflur í gengi íslensku krónunnar sem hafa þarna líka mikil áhrif. Ég ætla ekki að fullyrða hvert skuldahlutfallið eigi nákvæmlega að vera en ég held að við megum ekki hafa það of lágt og þröngt þó að ég sé algerlega sammála aga og langtímahugsun í ríkisfjármálum. Það er mjög nauðsynlegt fyrir ríkið í miklum efnahagssamdrætti að geta brugðist við með útþenslu til að vinna gegn frekari efnahagsþrengingum, vinna gegn atvinnuleysi og slíku.

Ég hef svo sem enga frekari spurningu varðandi þetta aðra en kannski þá hvort ráðherra sé ekki sammála því að það séu einmitt sveiflur í gengi íslensku krónunnar sem þurfi líka að huga að þegar við veltum fyrir okkur þeim aga sem hér þarf að vera á hlutunum.