144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

opinber fjármál.

206. mál
[12:24]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi fagna því að þetta frumvarp er hér fram komið og taka undir með hæstv. ráðherrum um að það sé mikilvægur áfangi í því að skapa eðlilega umgjörð um fjármál ríkisins til lengri tíma litið.

Það var hafist handa um vinnu við þetta verkefni í fjármálaráðherratíð hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, efnahagsráðherratíð minni, og þetta hefur gengið áfram í gegnum stjórnkerfið síðustu ár og margir komið að. Það er mjög mikilvægt að þetta frumvarp skuli vera komið fram.

Ég er sammála hæstv. ráðherra um að það sé mikilvægt markmið í ríkisrekstri á Íslandi að halda skuldastöðu ríkissjóðs lágri. Við sáum það í efnahagsáfallinu nú síðast hversu mikilvægt það var fyrir okkur að eiga skuldlausan ríkissjóð upp á að hlaupa til að takast á við erfiðleikana sem að steðjuðu. Og reynslan er almennt sú þegar horft er á afleiðingar síðustu fjármálakreppu, sem ekki sér algerlega fyrir endann á alls staðar, að þau lönd sem skást hafa farið út úr henni eru lönd sem hafa búið hafa við þessar aðstæður. Ég tek Danmörku sem dæmi þar sem ríkisskuldir voru lágar og umtalsvert svigrúm í ríkisfjármálum til að takast á við aukna skuldsetningu samhliða áfallinu.

Það er síðan óumdeilanleg staðreynd og hefur ekkert með náttúrufar á Íslandi að gera eða aflabrögð á Íslandsmiðum að sveiflur eru meiri í efnahagslífi hér en í flestum öðrum opnum smáum hagkerfum. Eins og Gylfi Zoëga prófessor rakti svo ágætlega í fyrirlestri til minningar um Jónas Haralz í síðustu viku hefur kaupmáttarþróun íslenskra heimila síðustu 15–20 árin verið gríðarlega sveiflukennd, og það er ekki vegna innri aðstæðna í íslensku efnahagslífi heldur vegna framboðs og eftirspurnar eftir fjármagni á alþjóðlegum mörkuðum. Með íslenskri krónu og opnu hagkerfi höfum við gerst áskrifendur að því að láta framboð og eftirspurn eftir peningum á alþjóðamörkuðum ráða kaupmætti íslenskra heimila, og það er sá veikleiki sem kallar á enn meiri aga hér en í öðrum löndum.

Virðulegi forseti. Það er vert að minna á að þessi umgjörð er þess vegna grundvallarumgjörð óháð því hvaða gengisfyrirkomulag við veljum okkur og hvaða peningamálafyrirkomulag við veljum okkur. Við þurfum að hafa litlar ríkisskuldir í opnu hagkerfi, en hitt er annað mál að með íslenskri krónu reynir enn meira á umgjörð sem þessa og við þurfum að hafa enn sterkari og harðari aga en við þyrftum ella.

Hæstv. fjármálaráðherra hefur oft sagt að þetta frumvarp hér sé eitt og sér nægjanleg umgjörð fyrir efnahagslega stefnumörkun og það þurfi ekki meira til, það þurfi t.d. ekki aðildarumsókn að Evrópusambandinu, það þurfi engin markmið eins og Maastricht-skilyrðin, það sé nóg að leiða þetta frumvarp í lög. Þar tel ég að hann leggi heldur mikla trú á agann einan og sér, sérstaklega ef haft er í huga að ekkert í framgöngu til dæmis núverandi ríkisstjórnar, sem hann situr í og ber ábyrgð á framkvæmd efnahagsmála hjá, bendir til að menn ætli að beita sjálfa sig þeim aga.

Hæstv. ráðherra rakti í framsöguræðunni að þetta frumvarp mundi kalla á algerlega ný vinnubrögð í ráðuneytum. Ég er sammála því en ég sé hvergi í fjárlagafrumvarpi gert ráð fyrir því að auka þekkingu eða hæfni í ráðuneytum til að takast á við það. Þvert á móti hefur nálgun þessarar ríkisstjórnar og meiri hluta fjárlaganefndar í tíð þessarar ríkisstjórnar verið sú að skerða svigrúm ráðuneytanna eins og mögulegt er, draga þar úr mannahaldi og veikja stefnumótunarhlutverk þeirra, þannig að ég sé ekki að gert sé ráð fyrir því að ráðuneytin geti mætt þeim auknu kröfum sem óhjákvæmilega verður að gera til þeirra og áætlunarhalds þar í ljósi hinnar nýju lagaumgerðar.

Eins og ég nefndi hefur hæstv. fjármálaráðherra talað um að agi sé forsenda og það er alveg rétt hjá honum að agi í ríkisfjármálum skiptir miklu um efnahagslegan framgang. En umgjörðin sem er í þessu frumvarpi er að því leyti einungis nægjanleg ef menn ætla að fara eftir henni, ef menn beita sjálfa sig þessum aga. Því miður er staðreyndin sú að þegar maður horfir á efni frumvarpsins og aðgerðir núverandi ríkisstjórnar blasir auðvitað við hið gríðarlega ósamræmi á milli þeirra krafna sem hér á að leggja á ríkisstjórnir framtíðarinnar og þeirra viðmiða sem núverandi ríkisstjórn leggur á sjálfa sig og kannski ekki furða að í bráðabirgðaákvæði sé búið að koma málum þannig fyrir að þessi megrunarkúr muni aðeins gilda um aðra en hæstv. fjármálaráðherra, vegna þess að fyrsta fjármálastefnan samkvæmt þessu frumvarpi mun ekki koma fram fyrr en í apríl 2016, 12 mánuðum fyrir næstu kosningar. Hæstv. fjármálaráðherra sjálfur mun því aldrei þurfa að fara eftir þeim reglum sem hér er að finna. Það fer heldur ekki hjá því að maður sjái að núverandi ríkisstjórn vinnur ekki í anda þessa frumvarps.

Tökum nokkur dæmi. Skuldalækkunin fræga. Hún fellur á nokkurn veginn öllum viðmiðunum sem er að finna í 6. gr. um grunngildi fjármálastefnu og fjármálaáætlana. Þar er rakið að stefnumörkun í opinberum fjármálum eigi að byggja á fimm grunngildum. Í fyrsta lagi sjálfbærni, sem felst í því að opinberar skuldbindingar séu viðráðanlegar til skemmri og lengri tíma og leggi ekki ósanngjarnar byrðar á komandi kynslóðir. Falleinkunn fyrir skuldaniðurfellinguna.

Í öðru lagi varfærni, sem er á hæfilegu jafnvægi milli tekna og gjalda. Ég ætla að gefa hæstv. fjármálaráðherra það að sú aðgerð var svo sem fjármögnuð með bankaskatti.

Í þriðja lagi stöðugleika, sem felst í að stefna í opinberum fjármálum stuðli að jafnvægi í efnahagsmálum. Það var akkúrat varað við því að þetta væri þensluhvetjandi á þeim tíma sem ekki væri ástæða til og slaki væri horfinn úr hagkerfinu.

Í fjórða lagi festu, sem felst í því að forðast óvæntar eða fyrirvaralitlar breytingar frá gildandi stefnu. Drottinn minn dýri! Það er aldeilis frávik frá gildandi stefnu og í sjálfu sér veitt vilyrði til komandi kynslóða um það að í öllum efnahagsáföllum héðan í frá muni Sjálfstæðisflokkurinn koma og niðurgreiða óhjákvæmilegt misræmi milli eigna og skulda.

Í fimmta lagi gagnsæi, sem felst í því að sett séu auðsæ og mælanleg markmið til meðallangs tíma um þróun opinberra fjármála í samræmi við grunngildin. Skuldaniðurfellingin er algert fráhvarf frá almennri stefnumörkun í ríkisfjármálum.

Ég nefni líka stöðu Íbúðalánasjóðs. Í gær var ég nauðbeygður til að senda hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra bréf þar sem ég óska eftir viðbrögðum ráðherrans við þeirri stöðu sem upp er komin þegar stjórnarmaður í Íbúðalánasjóði treystir sér ekki til starfa þar vegna þess að ábyrgð stjórnarmanna er gríðarlega rík en þeir hafa engin völd til að takast á við þann vanda sem að sjóðnum steðjar. Og ráðherrann sem hefur öll tök á rekstrarvanda sjóðsins er ábyrgðarlaus á rekstrinum. Hæstv. ráðherra fjármála hefur ekkert gert til að leggja fram heildstæða áætlun um Íbúðalánasjóð. Hann er opið sár í ríkisrekstrinum og það veldur því auðvitað þegar maður sér síðan frumvarp af þessum toga að gerð er krafa um það, væru þessi lög í gildi, að hæstv. fjármálaráðherra hefði fyrir löngu síðan komið með áætlun um það hvernig ætti að loka þeirri opnu áhættu sem er fyrir skattborgarana á rekstri Íbúðalánasjóðs í óbreyttu ástandi og firra þar með óbreytta stjórnarmenn lagalegri ábyrgð á vanrækslusyndum ráðherra þessarar ríkisstjórnar.

Í 11. gr. frumvarpsins er fjallað um samskipti og samráð ríkis og sveitarfélaga og það er heppilegt að samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu mun ekki reyna á það að hæstv. ráðherra fari að semja við sveitarfélögin um sameiginlega stefnu fyrr en í árslok 2015, rétt rúmu ári fyrir kosningar, vegna þess að allt er lýtur að samstillingu aðgerða hins opinbera milli ríkis og sveitarfélaga er í algeru uppnámi undir verkstjórn hæstv. fjármálaráðherra. Það hefur ekki verið, vegna þess að hæstv. fjármálaráðherra talaði áðan af nokkru steigurlæti um vanrækslusyndir fortíðarinnar, að menn veittu ekki fé til lögbundinnar þjónustu. Þá er sú staða uppi að hæstv. fjármálaráðherra er að vanefna samning sem skrifað hefur verið undir við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu um samgöngumál. Hann er að gera það núna, skriflegan samning svo nemur hundruðum milljóna. Það gæti hann væntanlega ekki gert ef þessi lög væru komin í gildi, þannig að það er gott ef þessi megrunarkúr muni gilda um aðra fjármálaráðherra en þennan.

Ég nefni líka hvernig komið hefur verið algerlega óforvarandis að sveitarfélögum með stórfelldar breytingar, svo sem eins og í styttingu atvinnuleysisbótatímabils, minna framboði á úrræðum fyrir atvinnuleitendur og fyrir fólk sem þiggur félagsþjónustu sveitarfélaga. Ríkið skerðir möguleika sveitarfélaganna til að bjóða fólki upp á lausnir, allt án samráðs og samtals.

Það er líka athyglisvert að ríkið hefur í lögum sett fjármálareglu um sveitarfélögin sem takmarka svigrúm þeirra. Félagsmálaráðherra þessarar ríkisstjórnar atyrðir síðan sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu fyrir að kaupa ekki nógu mikið af félagslegum íbúðum, en ríkisstjórnin gerir ekki reka að því að undanskilja kaup á félagslegu húsnæði fjármálareglunni. Það er hægt. Í tíð síðustu ríkisstjórnar ákváðum við að undanskilja skuldbindingar vegna byggingar hjúkrunarheimila, sem var bráðnauðsynlegt verkefni að ráðast í. Við ákváðum að undanskilja þær skuldbindingar sveitarfélaga fjármálareglunni. Það er enginn vandi að breyta fjármálareglunni þannig að sveitarfélögin geti betur tekist á við að sinna þessu lögbundna hlutverki sínu með því að fjölga félagslegum leiguíbúðum. Það er á valdi ríkisstjórnarinnar. En, nei, ráðherrar hennar kjósa að atyrða sveitarfélögin fyrir aðgerðaleysi á þessu sviði en breyta ekki regluverkinu sem gerir sveitarfélögunum ómögulegt að uppfylla kröfurnar sem ráðherrarnir leggja á þau.

Þá er náttúrlega ótalin sú staða sem er í samskiptum ríkis og sveitarfélaga vegna algerrar kyrrstöðu í áformum um flutning á þjónustu til sveitarfélaga og þess að það hefur náttúrlega ekkert samráð verið milli ríkis og sveitarfélaga um framkvæmd viðkvæmra breytinga eins og þeirrar þegar nú er í tíð Sjálfstæðisflokksins staðið að stærstu ríkisvæðingu nærþjónustu við almenning þegar ríkið er að taka af Akureyrarbæ heilsugæsluþjónustu við íbúa.

Ég velti því líka upp í 13. gr. með fjármálaráðið sem hæstv. ráðherra sagði í framsöguræðu að ætti að veita faglegt aðhald og mundi skipta miklu máli, skipað tveimur fulltrúum frá Alþingi og einum samkvæmt tilnefningu forsætisráðherra, sem jafnframt er formaður. Ef menn vilja faglegt aðhald verða þeir líka að fara eftir því og þegar skuldaniðurfelling hæstv. fjármálaráðherra var til meðferðar í þinginu var samdóma álit allra fagaðila sem veittu umsögn að vara við þessu, allt frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Efnahags- og framfarastofnun Evrópu yfir til allra fræðimanna á sviði hagfræði í landinu. Það var enginn prófessor sem kom hæstv. fjármálaráðherra til bjargar þegar hæstv. fjármálaráðherra ákvað að ríkisvæða einkaskuldir með fordæmalausum hætti. Ég spyr mig þess vegna: Hvaða þýðingu hefur það þegar ráðherra kemur og segist vilja fjármálaráð sem veiti faglegt aðhald þegar faglegt aðhald er í engu nýtt og virt að vettugi þegar það er veitt, eins og í þessu nýlega dæmi?

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hæstv. fjármálaráðherra um að vert sé að skoða samhengi skuldareglu og útgjaldareglu og það er þáttur sem við eigum að vinna áfram í meðförum Alþingis yfir málið. Það er vert að tryggja að þessi umgjörð stuðli að aga í ríkisfjármálum, greiði fyrir lækkun skulda ríkisins en geri okkur líka kleift að takast á við íslensk áföll. Meðan við erum með íslenska krónu og búum við opið hagkerfi munum við þurfa meira á því að halda en nokkurt annað ríki í Evrópu.