144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

opinber fjármál.

206. mál
[12:46]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fagnaðarefnið við þessa löggjöf er að hún á að geta greitt fyrir því að raunhæfari væntingar verði um heildarumfang til lengri tíma litið, það verði hin stóra breyting frá því ástandi sem nú er. Við upplifum það t.d. núna að framhaldsskólar sem búnir eru að taka inn nemendur vegna þessa skólaárs hafa þrjá mánuði á næsta ári vegna skólaársins 2015–2016 upp á að hlaupa þar sem þeir eiga að mæta 20% fækkunarkröfu í fjárlagafrumvarpinu. Þeir hafa sem sagt þrjá mánuði á næsta ári til að mæta því, sem þýðir að þeir munu þurfa að rústa rekstri framhaldsskólans til að mæta kröfum fjármálaráðherrans. Það eru slík atriði sem við gagnrýnum í fjárlagafrumvarpinu núna, að ekki er með nokkrum hætti gefinn eðlilegur aðlögunartími að kröfum um niðurskurð sem eru síðan í fullkomnu ósamræmi við langtímastefnumörkun og lögbundnar þarfir.

Að síðustu varðandi skuldaniðurfellinguna, það er alveg greinilegt að ég verð ekki sammála hæstv. fjármálaráðherra um hana. Hún er aðgerð þar sem gengið er á rétt komandi kynslóða, hún hyglir fólki á ákveðnu aldursbili á kostnað eldri borgara og ungs fólks, flytur til fjármuni í samfélaginu, styður sérstaklega við þá sem mest hafa milli handanna og síðan felur hún í sér að skuldir ríkissjóðs verða ekki greiddar niður. Skuldahlutfallið er að sönnu að lækka en það er að lækka vegna þess að landsframleiðslan er að aukast, ekki vegna þess að verið sé að greiða niður skuldir. Þess vegna er þessi skuldaniðurfelling í algjörri andstöðu við markmiðin (Forseti hringir.) í því frumvarpi sem nú er sett fram. (Forseti hringir.) Ég held að þessi aðgerð hefði fengið falleinkunn ef lögin hefðu verið komin í gildi.