144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

opinber fjármál.

206. mál
[14:19]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það ráða ekki alveg allir við sig í þessari annars ágætlega málefnalegu umræðu. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson brá ekki vana sínum og hreytti smáónotum í fyrri ríkisstjórn, sakaði hana um að hafa sagt eitt og gert annað, t.d. þegar kom að því að reyna að standa vörð um velferðarkerfið og lífskjör tekjulægstu eða veikustu hópa samfélagsins þó að við erfiðar aðstæður væri að glíma.

Ég verð að segja það, herra forseti, að mér finnst það stórbrotið að verða vitni að því aftur og aftur að einstakir stjórnmálamenn, eins og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson eða hæstv. forsætisráðherra þess vegna hér í morgun, komi og ræði um aðgerðir í ríkisfjármálum á síðasta kjörtímabili eins og þá hafi verið við algerlega venjulegar aðstæður að glíma og að hægt sé að ónotast út í aðgerðir, hvort sem það voru skattahækkanir og tekjuöflun eða aðgerðir til að draga úr útgjöldum og spara peninga, eins og að það hafi bara verið af einhverri meinbægni, einhver pólitísk vonska í fólki að vera að hækka skatta eða skera niður útgjöld, fullkomlega ástæðulaust.

Ég verð bara að segja alveg eins og er: Hvar voru þessir menn og hvenær ætla þessir menn að þroskast upp úr því stjórnarandstöðuhjólfari sem þeir brunnu svona fastir í á síðasta kjörtímabili? Ég meina, veruleikinn er auðvitað, eins og allir vita, sá að tilteknir stjórnmálamenn og flokkar fengu í hendur það verkefni á öndverðu ári 2009 að koma í veg fyrir að ríkissjóður Íslands færi á hausinn. Hann var rekinn með slíkum geigvænlegum halla að án mjög umfangsmikilla og erfiðra, sársaukafullra aðgerða á báðar hliðar, hvað varðar tekjuöflun og að spara útgjöld, hefði farið mjög illa.

Það bítur oft höfuðið af skömminni þegar sömu menn tala svo mikið um skuldir ríkissjóðs og hina miklu vaxtabyrði. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson talar oft um vaxtabyrðina, 80 milljarðar í vaxtagreiðslur. En hverjar væru þær ef ekki hefði verið tekið á (Forseti hringir.) ríkisfjármálunum jafn sköruglega og raun ber vitni á síðasta kjörtímabili?