144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

opinber fjármál.

206. mál
[14:21]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður fer, eins og stundum, að kenna okkur hinum hvernig við eigum að haga okkur. Nú var hann ósáttur við það að ég skyldi segja að mér sýndist, eftir að vera búinn að skoða þróun ríkisútgjalda, að ekki væri alltaf samræmi á milli þess sem menn legðu upp með, þess sem þeir hefðu sem yfirlýsta stefnu, og þess sem kæmi fram í fjárlögum. Það sem ég hef fyrir mér í því er ríkisreikningur. Ég er búinn að fara yfir þetta, fara yfir einstakar stofnanir.

Ég man bara ekki eftir því að hæstv. síðasta ríkisstjórn hafi lagt mikið upp úr því í orði kveðnu að auka framlög til einstakra liða í utanríkismálum, ég bara man ekki eftir því, eða til einstakra undirstofnana umhverfisráðuneytisins; og hlutfallslega erum við að tala um vel yfir 100%, jafnvel yfir 200%. Ég bara minnist þess ekki en kannski var eitthvað sagt í þá veruna. Það er þetta sem ég er að vísa í. Kannski tók ég ekki eftir því að áhersla væri lögð á þetta, kannski man ég bara ekki eftir því. Kannski sögðu þeir þetta mjög skýrt. Svo gæti verið — ég bara veit það ekki, ég mun aldrei komast að því — að sumir hlutir séu á ákveðinni sjálfstýringu.

Ef hv. þingmaður er mjög ósáttur við það sem ég segi hvað þetta varðar — og ekki voru það nú mikil stóryrði sem ég fór með hér, allir sem hlustuðu á ræðu mína geta borið vitni um það. Við vorum að ræða opinberu fjármálin og hvernig best sé að breyta þeim til að við náum þeim markmiðum sem við erum sammála um. En ef menn trúa þessu ekki eða finnst þetta ekki sanngjarnt þá geta menn allir farið á rikisreikningur.is og skoðað þróunina hjá einstökum stofnunum. Ég hef farið yfir þetta oft, bæði hér í þinginu og sömuleiðis á opnum fundum víðs vegar um landið, og ég get alveg gert það aftur ef hv. þingmaður vill að ég geri það.